Hótaði því að drekka blóð lögregluþjóns

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hari

Landsréttur hefur úrskurðað karlmann í gæsluvarðhald til 9. ágúst fyrir þjófnað, hótanir, valdstjórnarbrot og líkamsárásir. Maðurinn er hælisleitandi og á engan sakaferil hér á landi.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því að maðurinn yrði látinn sæta gæsluvarðhaldi en Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við í gær.

Samkvæmt rannsóknargögnum hafði lögregla níu sinnum afskipti af manninum á tímabilinu 12. mars til 12. júlí á þessu ári. 

Fram kemur að maðurinn hafi hótað lögregluþjóni lífláti með því að ætla að taka af honum höfuðið þegar lögregla hafði afskipti af honum vegna þjófnaðar í Smáralind. 

„Á leið á lögreglustöðina sagði kærði að honum hafi alltaf langað til þess að drepa kristna manneskju og þegar það yrði þá ætlaði hann að skera höfuð hennar af og drekka blóðið úr henni því til fögnuðar og beindi þeim orðum til lögreglumannsins að hann gæti orðið fyrir valinu hjá honum,“ segir í greinagerð málsins.

Alls er maðurinn sakaður um fjögur þjófnaðarbrot, tvær líkamsárásir, hótanir og valdstjórnarbrot. Auk þess er maðurinn sakaður um að hafa hótað starfsmönnum lífláti sem gómuðu hann við þjófnað.

Úrskurður Landsréttar.

mbl.is