Sást síðast til hans á Íslandi

Pólskur maður, sem búsettur var í Sandgerði, hefur ekki sést síðan 28. febrúar. Hann fór af landi brott þann dag og því stendur leit að honum ekki yfir á Íslandi. Þetta staðfestir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Auglýst hefur verið eftir pólskum manni, Mateusz Tynski, á vefsíðu samtakanna ITAKA. Samtökin auglýsa eftir týndu fólki og kemur fram í auglýsingu frá þeim að síðast hafi spurst til mannsins á Íslandi. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Mateusz er 29 ára gamall, 177 sentimetrar á hæð og með brún augu. Hann átti heima í Sandgerði og sagði nágranni hans við Fréttablaðið að hann hefði keyrt Mateusz í flug til Póllands en hefði ekkert séð né heyrt af honum síðan.

Hann er sagður vera rólyndis- og reglumaður en mikill einfari.

Engin leit á Íslandi

Gunnar Schram segir að lögregla hafi kannað málið eftir að beiðni um það kom frá Póllandi. Eftir að grennslast var fyrir um málið kom í ljós að maðurinn fór af landi brott 28. febrúar og því stendur ekki yfir leit að honum hér á landi.

„Við vitum ekki hvert hann var að fara en fengum að vita fyrir nokkrum dögum að hans væri leitað og vorum beðin um að koma upplýsingum um hann til viðeigandi stjórnvalda,“ segir talsmaður pólska sendiráðsins á Íslandi í samtali við mbl.is.

Hann bætir því við að Mateusz hafi heimsótt sendiráðið fyrir nokkru síðan og fengið aðstoð frá starfsmönnum þess en annars hafi sendiráðið engar upplýsingar um hann eða dvalarstað hans. Sendiráðið er með málið til skoðunar.

Mateusz Tynski hefur ekki sést síðan 28. febrúar.
Mateusz Tynski hefur ekki sést síðan 28. febrúar. Samsett mynd/ITAKA
mbl.is