Slasaður göngumaður við Hrafntinnusker

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarmenn á hálendisvakt björgunarsveita í Landmannalaugum voru kallaðir út í morgun vegna slasaðs göngumanns við Hrafntinnusker sem er fyrsti skálinn á Laugaveginum, gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Voru fyrstu upplýsingar á þann veg að viðkomandi væri illa brotinn á hendi. Er björgunarmenn komu í Hrafntinnusker um einum og hálfum tíma síðar reyndust áverkarnir þó vera minni en fyrstu upplýsingar gáfu til kynna, að því er segir í fréttatilkynningu frá Landsbjörg. 

Búið var þó um hinn slasaða göngumann, sem reyndist með minni háttar brot, og verður hann fluttur niður í Landmannalaugar með björgunarmönnum og svo áfram til byggða þar sem honum verður komið undir læknishendur.

Nokkuð mikið hefur verið um útköll vegna göngumanna á hálendisvakt björgunarsveita það sem af er sumri.

Í gær fóru þeir björgunarmenn sem manna hálendisvaktina á Sprengisandi til aðstoðar manni sem var að ganga frá Nýjadal að Drekagili við Öskju. Voru þar tveir ferðalangar saman og var annar þeirra ógöngufær vegna áverka á fæti. Var honum ekið í Nýjadal þaðan sem hann fór til byggða undir læknishendur. Félagi hans hélt hins vegar áfram göngunni í Drekagil.

mbl.is