Úðað á lögreglu í hjólhýsi á Skagaströnd

Fólkið hafðist við í hjólhýsi á Skagaströnd, en lögregla komst …
Fólkið hafðist við í hjólhýsi á Skagaströnd, en lögregla komst á spor þess þar sem það var á ferðinni á stolnum bíl. mbl.is/Sigurður Bogi

Hvít efni, amfetamín og kókaín, fundust í bifreið fólks sem handtekið var í hjólhýsi á Skagaströnd í gærkvöldi. Vilhjálmur Stefánsson rannsóknarlögreglumaður segir að um rúmlega 100 gr. af fíkniefnum sé að ræða. 

Piparúða eða einhverju slíku var beitt gegn lögreglumönnum er þeir brutu sér leið inn í hjólhýsi fólksins um klukkan 22 í gærkvöldi.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/07/17/beittu_taragasi_gegn_logreglu/

Stolin bifreið kom lögreglu á sporið

Að sögn Vilhjálms komst lögregla á spor fólksins, karls á fertugsaldri og rúmlega tvítugrar konu, eftir að tilkynning barst um að bifreið sem stolið var í Reykjavík fyrir einhverju síðan væri stödd á Skagaströnd.

Þangað hélt lögregla um kl. 18 í gær og komst að því að fólkið á bílnum væri staðsett í hjólhýsi.

Klukkan tíu í gærkvöldi fóru svo sjö lögreglumenn að hjólhýsinu, eftir að hafa fengið heimild til þess að leita í því og endaði lögregluliðið á að þurfa að spenna upp hurðina á hjólhýsinu til þess að komast inn.

„Þá tók á móti okkur úði, einhver piparúði eða gaslykt. Við vorum hræddir um að þetta væri gas svo við brutum strax rúður í hýsinu til þess að fyrirbyggja sprengihættu, en síðan var þetta bara líklega piparúði sem við fengum á okkur þarna,“ segir Vilhjálmur, en lögreglumönnum varð ekki meint af úðanum, enda þjálfaðir í að fá slík efni yfir sig.

Hann segir karlmanninn hafa streist á móti handtöku og að ástand fólksins hafi ekki verið gott þegar lögregla kom á staðinn, en í hjólhýsinu fundust áhöld til neyslu fíkniefna. Fíkniefnaleitarhundur lögreglu fann svo fíkniefnin í stolnu bifreiðinni.

Verða yfirheyrð síðar í dag

Vilhjálmur gerir ráð fyrir því að efnin hafi verið ætluð til sölu. „Maður býst við því, þetta er það mikið. Einhvern veginn þarftu að fjármagna þetta og þú þarft að vera ansi framtakssamur til þess að fjármagna þetta, þessi efni.“

Fólkið verður yfirheyrt á Blönduósi síðar í dag, en það er grunað um ýmis brot gegn hegningarlögum.

„Þetta er náttúrulega vopnalagabrot hjá þeim og þjófnaður á bílnum og fíkniefnalagabrot og árás á lögreglumenn. Það er bara slatti í poka, því miður,“ segir Vilhjálmur, en einnig fannst ætlað þýfi í fórum fólksins.

Uppfært kl. 15:06: Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um magn þeirra fíkniefna sem fólkið var með í fórum sínum, en lögreglan var enn að vigta efnin er fréttin fór í loftið.

mbl.is