15 ára stressaður fyrir heimsleikunum

Brynjar Ari Magnússon á góðri stundu í Madison í fyrra.
Brynjar Ari Magnússon á góðri stundu í Madison í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Brynjar Ari Magnússon fimmtán ára crossfit-kappi er á leiðinni á heimsleika unglinga í crossfit í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum. „Ég verð ekki sáttur nema ég lendi alla vega á verðlaunapallinum,“ segir hann. „Eða þá vinn ég bara alveg.“

Hann flýgur til Bandaríkjanna á mánudaginn og fær því nægan tíma til að jafna sig á tímamismuninum og loftslaginu, enda hefjast leikarnir um verslunarmannahelgina. „Ég er að reyna að hugsa ekki of mikið um þetta, því þá verð ég stressaður,“ segir Brynjar þegar hann spjallar við blaðamann mbl.is um þrekraunirnar framundan.

„Nú erum við bara að æfa á fullu. Það er æfing tvisvar á dag,“ segir hann og þær æfingar felast bara í klassísku crossfitti. Það er ekki vitað í hverju þrekraunin á heimsleikunum mun felast nákvæmlega og það kemur í ljós á staðnum. Þangað til ríkir óvissa.

Brynjar Ari Magnússon, til hægri, er á leiðinni á Crossfit-heimsleikana …
Brynjar Ari Magnússon, til hægri, er á leiðinni á Crossfit-heimsleikana annað árið í röð. Með honum fer Sigurður Darri Rafnsson þjálfari hans. Ljósmynd/K100

Var yngsti keppandinn á mótinu

„Eina sem við getum gert núna er að skoða gamlar keppnir og reyna að gera okkur hugmynd um hvað kemur í ár,“ segir þjálfari Brynjars, Sigurður Darri Rafnsson. Hann fer með Brynjari út. Ýmislegt kemur til greina sem aukagrein við grunnæfingarnar sem alltaf er keppt í, sund, eða hlaup, eða hvað sem er.

Að sögn Brynjars og Sigurðar er að vonum ekki lagt jafn mikið í heimsleika unglinga og fullorðinna. Keppnin fer fram í öðru húsnæði. Brynjar var í 10 manna hópi sem komst á aðalkeppnina. Þar á undan hafði hann keppt við aðra 200 í „online qualifications“ svokölluðum og þar á undan á opna alþjóðlega mótinu þar sem allir freista þess að komast á leikana.

Brynjar er ekki að fara í fyrsta sinn á heimsleikana. Í fyrra fór hann nýfermdur og stóð sig með prýði. Þá var hann yngsti keppandinn á öllu mótinu. Nú kemur hann tvíefldur til baka eftir stíft æfingaár á Íslandi og hyggst standa sig þeim mun betur.

Pressan er mikil. „Ég er frekar stressaður,“ segir hann.

mbl.is