6.000 tonn af malbiki á Hellisheiði

Frá Hellisheiði í dag.
Frá Hellisheiði í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Malbikun á Hellisheiði, frá Kambabrún og niður Hveradalabrekku, hófst í morgun. Áætlað er að framkvæmdum ljúki um miðnætti annað kvöld, en á meðan er Hellisheiði lokuð í vesturátt. Áætlað er að um 6.000 tonn af malbiki verði notað. 

Hafsteinn Elíasson, verkefnastjóri hjá malbikunarstöðinni Hlaðbær Colas, segir allt hafa gengið vel það sem af er degi. 

„Þetta gengur mjög vel. Framkvæmdir á svæðinu byrjuðu klukkan sex í morgun en malbikun hófst rétt fyrir átta,“ segir Hafsteinn. 

Hafsteinn segir að upphaflega hafi áætlunin verið að malbika til klukkan tíu í kvöld, en sökum veðurblíðunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag hafi verið ákveðið að framkvæmdir muni standa til miðnættis. 

„Veðrið gerir það að verkum. Við ætlum að gefa okkur tíma til miðnættis á morgun líka. Þetta er þriggja daga vinna.

„Þetta er búið að vera á planinu hjá okkur í tæpar þrjár vikur en vegna veðurs hefur ekki borgað sig að fara hingað uppeftir.“

6.000 tonn af malbiki 

Hafsteinn var staddur á Hellisheiði þegar blaðamaður náði tali af honum og segir hann umferð vera litla. Umferð er beint um hjáleið um Þrengslaveg og er opið fyrir umferð í austur. Þá eru vegfarendur sérstaklega beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. 

Um 30 starfsmenn vinna að malbikuninni hverju sinni að sögn Hafsteins. Hann segir allan undirbúning hafa gengið vel og segir hann framkvæmdirnar vera umfangsmiklar. 

„Þetta verða um 6.000 tonn af malbiki á endanum. Síðan verður meira eftir verslunarmannahelgina. Þá malbikum við um þrjá kílómetra í austurátt að Drottningaplani á Kömbum,“ segir Hafsteinn.

mbl.is