Borinn röngum sökum við störf sín

Starfsmaður verkfræðistofunnar Eflu var sakaður um að vera barnaperri eftir …
Starfsmaður verkfræðistofunnar Eflu var sakaður um að vera barnaperri eftir að hann fór í ástandsskoðun á leikvöll í Reykjavík í dag. mbl.is/​Hari

Verkfræðistofan Efla birti í dag yfirlýsingu á vefsíðu sinni, eftir að starfsmaður fyrirtækisins var sakaður um að vera „barnaperri“ sem væri að taka myndir af börnum á leikvelli í Drekavogi í Langholtshverfi. Hið rétta er að hann var að gera úttekt á leiksvæðinu fyrir Reykjavíkurborg. DV fjallaði um þennan mikla misskilning í dag.

Umræða fór af stað í Facebook-hópi íbúa í Langholtshverfi og þaðan var henni einnig deilt yfir í Facebook-hópinn Mæðratips. „Hringið strax í 112 þessi maður er barnaperri,“ sagði sú sem deildi umræðunni þangað, samkvæmt skjáskoti á vef DV.

Var í flíspeysu merktri Eflu

Konan sem hóf umræðuna upprunalega og deildi mynd af manninum með nágrönnum sínum í Langholtshverfi trúði ekki skýringum starfsmannsins þess efnis að hann væri þarna að gera úttekt á leikvellinum. Hann var þó klæddur í flíspeysu sem merkt var verkfræðistofunni, samkvæmt því sem fram kemur í yfirlýsingu Eflu.

Hún hafði samband við Reykjavíkurborg, þar sem hún segist hafa fengið þau svör að enginn væri á staðnum á þeirra vegum. Í kjölfarið hringdi hún á lögregluna og varaði einnig við manninum á Facebook.

„EFLA harmar mjög að umræðan skuli hafi farið í þennan farveg. Þó að vissulega sé alltaf gott að hafa varann á sér gagnvart grunsamlegri hegðun fullorðinna á leikvöllum þá biður EFLA fólk einnig um að gæta þess að bera ekki í fljótfærni rangar sakir á saklausa einstaklinga í umræðum á Facebook. Oft getur einfaldlega verið um að ræða fólk að sinna starfi sínu,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert