„Engin bráðabirgðalausn í stöðunni“

Dýraeigendur á Vestfjörðum verða að leita langt eftir þjónustu dýralækna.
Dýraeigendur á Vestfjörðum verða að leita langt eftir þjónustu dýralækna. mbl.is/Styrmir Kári

„Matvælastofnun hefur það hlutverk með lögum að halda úti þjónustu dýralækna á þessum svæðum. Ég veit að það hefur verið reynt að manna svæðið með einhverjum hætti og það hefur ekki gengið betur en raun ber vitni. Sú vinna stofnunarinnar heldur áfram og fylgist ráðuneytið náið með framvindu hennar,” segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um þá stöðu að enginn starfandi dýralæknir hefur verið í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum frá 1. júlí.

Þjónustusamningar Mast sem eru í gildi við dýralækna á 10 svæðum í dreifbýli hafa verið gagnrýndir meðal annars vegna þess að dýralæknum er skylt að sjá til þess að manna stöðuna á meðan þeir fara í frí. 

Ráðherra hefur skipað starfshóp sem fer yfir þjónustusamninginn sem er í gildi við dýralæknana. Hann rennur út 1. nóvember næstkomandi. Áætlað er að hann skili tillögum sínum í október.

Bændur á svæðinu segja stöðuna slæma og hafa meðal annars kallað eftir því að einhver bráðabirgðalausn verði fundin í millitíðinni þar til dýralæknir fæst til starfa á svæðinu.  

„Ég treysti stofnuninni [Mast] til að leita allra þeirra úrræða sem fyrirfinnast til að koma þessari þjónustu í betra horf,” segir Kristján Þór spurður um þau úrræði sem Mast hefur til að leysa málið í millitíðinni.

Hann ítrekar að ráðuneytið gegni fyrst og fremst því hlutverki að breyta umgjörð, taka upp samninga eða breyta lagaákvæðum ef þurfa þykir líkt og raunin er með því að skipa starfshópinn sem fer yfir þjónustusamninginn.

Geta leitað til annarra dýralækna í millitíðinni  

„Þeir geta leitað til annarra dýralækna á landinu,“ segi Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir Matvælastofnunar, spurð hvað dýraeigendur á svæðinu geti gert á meðan enginn fæst til starfa. 

Hún segir þetta jafnframt vera pattstöðu. „Við getum ekkert gert. Það er enginn dýralæknir sem hefur sýnt starfinu áhuga. Ég get ekki neytt dýralækna til starfa,” segir hún.

Spurð hvort til greina komi að reyna að finna einhverja bráðabirgðalausn í stöðunni segir hún enga slíka í sjónmáli. Hún fangar því að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hyggist skipa fyrrgreindan starfshóp. Hún segist jafnframt taka fagnandi á móti öllum hugmyndum um hvernig eigi að leysa þetta í millitíðinni.  

„Það er engin bráðabirgðalausn í stöðunni. Ef einhver myndi vilja fara þarna og vinna á ákveðnum skilyrðum myndum við að sjálfsögðu skoða það,“ segir Sigurborg.     

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert