„Fílar í sódavatni“ hluti af sýningu

Skiltið vekur athygli.
Skiltið vekur athygli. Ljósmynd/Bakland ferðaþjónustunnar

Skilti þar sem virðist vera varað við fílum sem baða sig í sódavatni á Ólafsfirði vekur athygli á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar. Baklendingar átta sig ekki alveg á skiltinu en fari fólk á listasýningu í Pálshúsi í bænum kviknar á flestum perum.

Listakonurnar Olga Bergmann og Anna Hallin settu á laugardag upp sýninguna „Innskot“ í Pálshúsi. Í lýsingu kemur fram að sýningin byggi á athugunum þar sem tilfærsla á tíma, staðsetningu og menningu eigi sér stað og áður óþekktir steingervingar og fornleifafundir á Tröllaskaga varpi nýju ljósi á samhengi hlutanna.

Skiltið er hluti af sýningunni.

Í verkinu gætir einnig áhrifa frá vangaveltum um hlutverk 5000 ára gamallra sýrlenskra „augnskurðgoða” eða „Eye Idols” sem fundust við fornleifauppgröft í Tell Brak í Sýrlandi rétt fyrir heimstyrjöldina síðari sem vegna sérkennilegs útlits hafa ýtt undir kenningar um geimverur eða verur úr annarri vídd sem hugsanlegar fyrirmyndir þeirra, að því er fram kemur í lýsingu sýningarinnar sem stendur yfir til 15. september.

„Þetta er varúðarskilti um að þessar verur gætu dúkkað þarna upp,“ segir Olga við mbl.is en skiltið er í fjörunni við Héðinsfjarðargöng.

Þegar lýsingin sýningarinnar er skoðuð á vefsíðu Pálshúss lítur út eins og veran sé í firðinum. „Þær hafa einhvern tímann verið þarna í vatninu,“ segir Olga og hlær.

„Við erum að velta því fyrir okkur hvernig þekking verður til eða hún getur breyst,“ segir Olga sem hvetur fólk til að gera sér ferð norður í land og bendir á að ferðin geti jafnvel verið skemmtileg fyrir ungt fólk í leit að „lækum“:

„Fólk getur komið við í fjörunni, hún er mjög Instagram-væn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina