Handtekinn grunaður um vændiskaup

Slagsmál og grunur um vændiskaup voru meðal verkefna næturinnar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Einn maður var handtekinn vegna hótana og færður á lögreglustöð eftir að lögregla þurfti að hafa afskipti af mönnum vegna slagsmála í hverfi 105. var maðurinn þó látinn laus aftur að lokinni skýrslutöku.

Það var svo um tvöleytið í nótt sem óskað var eftir aðstoð lögreglu í miðbænum vegna „óvelkomins manns“ að því er segir í dagbók lögreglu. Maðurinn, sem er grunaður um vændiskaup, var handtekinn á staðnum. Fór hann ekki að fyrirmælum lögreglu og er aukinheldur grunaður um að hafa haft fíkniefni í fórum sínum. Var hann vistaður í fangageymslu í nótt.

Þá stöðvaði lögregla nokkurn fjölda ökumanna sem m.a. voru grunaðir um að aka bíl undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra sem lögregla stöðvaði í Hafnarfirði í nótt var ekki nema 16 ára og því ekki kominn með bílpróf, en um ítrekað brot var þó að ræða.

mbl.is