Leita eiganda „slagsmálahamsturs“

Hamstrinum hefur lögregla gefið nafnið „Hamstur Macgregor“.
Hamstrinum hefur lögregla gefið nafnið „Hamstur Macgregor“. Ljósmynd/Facebook-síða lögreglunnar á Suðurnesjum

Lögreglan á Suðurnesjum greinir frá slagsmálum í bakgarði við heimahús í Keflavík í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Annar aðilinn lenti að sjálfsögðu undir eins og gengur og gerist. En það sem er einkennilegt við þessi slagsmál er að sigurvegarinn bar þann sem varð undir í kjaftinum heim til sín, sigri hrósandi, og sýndi eiganda sínum hversu megnugur hann var,“ segir í færslunni.

Þar höfðu slegist  köttur og hamstur og náði eigandi kattarins hamstrinum frá kisa og kom með hann á lögreglustöðina í Reykjanesbæ.

Lögreglan leitar því nú eiganda „slagsmálahamsturs“ sem lögreglumennirnir segjast hafa gefið nafnið „Hamstur Macgregor“ í kerfum sínum.

„Að sögn lögreglumanna á vakt þá er hamsturinn talsvert æstur eftir átökin og heimtar re-match við kattarófétið (eins og hann orðar það).“
Færslunni lýkur lögreglan svo á þeim orðum að vonandi verði ekki langt í að lögreglan á Suðurnesjum nái út eins og einu stöðugildi lögreglumanns, sem muni alfarið sjá um vesenið á „blessuðu dýrum hér á svæðinu“.:)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert