Umferðarlagabrotum og kynferðisbrotum fjölgar

Skráð voru 698 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júní og fækkar …
Skráð voru 698 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júní og fækkar þessum brotum á milli mánaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umferðarlagabrotum og skráðum kynferðisafbrotum fjölgaði mikið á höfuðborgarsvæðinu í júní. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júní 2019.

Skráð voru 698 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júní og fækkar þessum brotum á milli mánaða, en þau voru 717 í síðasta mánuði.

Í júní fjölgaði skráðum umferðarlagabrotum mikið, en á milli mánaða fjölgaði þeim um 26 prósent. Alls voru skráð 194 brot þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Ekki hafa verið skráð jafn mörg tilvik síðan lögum og verklagi lögreglu vegna aksturs undir áhrifum ávana– og fíkniefna var breytt árið 2006. 

Sama gildir um brot þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur en það sem af er ári hafa verið skráð um 18 prósentum fleiri brot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan.

Líkt og í maí er fjöldi kynferðisafbrota mikið hærri en áður og má rekja þessa fjölgun til aðgerða lögreglunnar í vændismálum, að því er fram kemur í skýrslunni.

Undanfarnar vikur hefur LRH verið í sérstökum aðgerðum tengdum mansali, en vændi er ein af birtingarmyndum mansals. Þetta er einn af þeim þáttum í skipulagðri brotastarfsemi sem LRH leggur mikla áherslu á í aðgerðum sínum.

Skýrsluna má skoða hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert