Varð ekki vör við neitt óvenjulegt

Tugir liggja í Löngufjörum.
Tugir liggja í Löngufjörum. Ljósmynd/David Schwarzhans

„Ég var greinilega í nágrenni við þá í dag en vissi ekki af þeim. Ég vildi að ég hefði vitað þetta þá hefði ég kíkt á þá,“ segir Branddís Margrét Hauksdóttir, ferðaþjónustubóndi á Snorrastöðum, sem var ríðandi á Löngufjörum á Snæfellsnesi með góðan hóp með sér í dag, einungis nokkra kílómetra frá grindhvölunum sem þar rak á land.

Þetta svæði er eftirsótt á meðal hestamanna því fjaran þykir einstaklega mjúk undir fæti. Grindhvalirnir sem eru nokkrir tugir liggja á Gömlueyri sem er um 5 kílómetra löng á Löngufjörum. Landið tilheyrir eyðibýlinu Litla-Hrauni sem er næsti bær við Snorrastaði.

Branddís segir hópinn ekki hafa orðið varan við neitt óvenjulegt í dag. Hvorki hafi verið vond lykt sem barst þeim né óvenjumargir fuglar á svæðinu.  

Lögreglan í Stykkishólmi fékk ábendingu um grindhvalina á Löngufjörum upp úr hádegi í dag. Viðeigandi stofnunum, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun, var gert viðvart samkvæmt Jóni S. Ólasyni lögreglufulltrúa í Stykkishólmi.  

Staðkunnugir telja að erfitt verði um vik að komast að hræjunum og athafna sig á svæðinu því sjávarföll stýri því.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert