Æðardúnninn sama gamla kókaínið

Í grein sinni leggur Posnett mest upp úr æðarvarpi á …
Í grein sinni leggur Posnett mest upp úr æðarvarpi á Vestfjörðum. Það er sagt kókaín Íslendinga vegna verðmætis síns. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íslenski æðardúnninn er alltaf sama kókaín í augum erlendra fjölmiðla, að því er virðist. Fyrir þremur árum sagði mbl.is frá því, þegar upprennandi blaðamaður vann greinakeppni hjá Financial Times með því að hafa það eftir ónefndum vestfirskum sóknarpresti að æðardúnn Íslendinga væri „þeirra kókaín“. Sagan endurtekur sig, því langloka dagsins hjá Guardian (e. long read) er um undur íslenska æðardúnsins. Útgangspunkturinn er sá sami, presturinn sem líkti dúninum við kókaín, og það sem meira er: höfundurinn er sá sami.

Hann heitir Edward Posnett og hann virðist vera að skrifa grein í Guardian í aðdraganda útgáfu nýrrar bókar sinnar Harvest: The Hidden Histories of Seven Natural Objects. Hann fer mjög fögrum orðum um æðarfuglinn við Íslandsstrendur og leggur áherslu á sjálfbærni æðardúnstínslu hér á landi, þá staðreynd að dúnninn í tiltekinni fínni sæng eða tiltekinni fínni úlpu, sé að öllum líkindum af fugli sem enn lifir frjáls og hefur aldrei þurft að þola neitt misjafnt af hendi mannsins.

Ónefndi presturinn, sem Posnett vitnar svo mikið til, virðist vera Fjölnir Ásbjörnsson, sóknarprestur í Holtsprestakalli á Ísafirði. Af einhverjum ástæðum er nafns hans aldrei getið í greininni, þó að fjöldi annarra viðmælenda sé nafngreindur. Posnett hitti hann á Ísafirði, að vísu ekki meðan á varpi stóð, og Fjölnir er sagður hafa veitt honum leiðsögn um svæðið. Fjölnir hefur stundað það að hirða æðardún.

Umræddur prestur virðist vera Fjölnir Ásbjörnsson, sóknarprestur á Ísafirði.
Umræddur prestur virðist vera Fjölnir Ásbjörnsson, sóknarprestur á Ísafirði. Ljósmynd/Twitter

Posnett lýsir því síðan í þessari löngu grein hvernig víkingar eru sagðir hafa notað æðardún til einangrunar og síðar hafi dúnninn verið metinn til fjár þegar innheimt var tíund af bændum á miðöldum. Elstu heimildir um að æðardúnn hafi verið fluttur út eru frá 17. öld. Posnett segir síðan að nú sé æðardúnn fyrst og fremst munaður hinna ríku, þó að hann hafi verið tíndur úr hreiðrunum frá því í landnámi.

Æðarkolla með unga í Eyjafirði.
Æðarkolla með unga í Eyjafirði. Ómar Óskarsson

Á ferðalagi sínu um Ísland fór Posnett einnig með Alexíusi Jónassyni, einum eigenda Æðeyjar, sem hann talar um að hafi látið af sauðfjárrækt í lok síðustu aldar til að sérhæfa sig í framleiðslu á æðardúni, að skoða Æðey. „Það er einhver ómótstæðilegur einfaldleiki við sambandið á milli þeirra sem uppskera dúninn og æðanna sjálfra. Ef bóndinn annast endurnar, koma sífellt fleiri og hreiðra um sig á svæðinu, sem aftur eykur magn dúnsins sem hann uppsker,“ segir Posnett.

Posnett ræðir varnirnar sem haldið er uppi gegn vörgum þeim sem herja á æðarvörpin, refum, hröfnum og minkum. „Hvarf íslenska hafarnarins, sem varð næstum því útdauður á 7. áratugnum, er að mörgu leyti talið tengjast aðgerðum æðardúnsbænda. Þó að stofninn hafi nú jafnað sig, gefur áfallasaga hans góða mynd af því sem Andri Snær Magnason, sem sjálfur er æðardúnsbóndi, hefur kallað myrku hliðina á æðarbúskapnum: hversu dyggðugir sem bændurnir kunna að vera, hafa þeir ætíð sterka tilhneigingu til að drepa hvaða skepnu sem ógnar verðmætum æðarfuglinum,“ segir Posnett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert