Andlát: Gunnar B. Eydal

Gunnar B. Eydal
Gunnar B. Eydal

Gunnar B. Eydal, fyrrverandi skrifstofustjóri borgarstjórnar og borgarlögmaður, lést á líknardeild Landspítalans 15. júlí. Hann var á 76. aldursári.

Gunnar fæddist á Akureyri 1. nóvember 1943 og ólst þar upp á ytri Brekkunni. Hann var auk þess í sveit á sumrin á Möðruvöllum í Eyjafirði og á Þverá í Eyjafirði.

Gunnar var í Barnaskóla Akureyrar, lauk stúdentsprófi frá MA 1964, lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1971, stundaði nám í vinnurétti í Kaupmannahöfn 1971-72, öðlaðist hdl.-réttindi 1974 og hrl.-réttindi 1992.

Hann var fulltrúi bæjarfógetans á Akureyri 1971, lögfræðingur hjá BSRB 1972-76 og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra bankamanna 1976-79. Gunnar réðst til Reykjavíkurborgar 1979 og starfaði þar í rúm 30 ár. Lengst af gegndi hann starfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, var borgarlögmaður um skeið og borgarritari í afleysingum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri minntist Gunnars á borgarráðsfundi í gær og sagði að hann hefði setið 1.600 borgarráðsfundi og 570 borgarstjórnarfundi og unnið með níu borgarstjórum.

Gunnar sinnti stundakennslu, m.a. við MH og lagadeild HÍ. Hann sat í verðlagsdómi 1974-78, var formaður Barnaverndarráðs Íslands 1979-82 og átti sæti í fjölda nefnda, m.a. á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Eftir Gunnar komu út ritin Vinnuréttur, útg. 1978 og aftur 1986; Hagnýt lögfræði, útg. 1984; Sveitarstjórnarréttur, 2006, Borgarfulltrúatal, 2010, og Gamlar glefsur og nýjar. Vegprestar vísa veginn, útg. 2016. Hann skrifaði auk þess greinar um lögfræðileg málefni, m.a. í Tímarit lögfræðinga og Sveitarstjórnarmál.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Ásgerður Ragnarsdóttir kennari. Þau gengu í hjónaband 23. september 1966. Börn þeirra eru Ragna Björk grunnskólakennari, Hjördís leikskólakennari og Gunnar Páll jarðfræðingur. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin tvö.

Útförin verður frá Bústaðakirkju fimmtudaginn 25. júlí klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »