Festi bílinn í undirgöngunum

Um 70 mál komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt og voru þrír vistaðir í fangageymslu. Ein líkamsárás var tilkynnt og mikill fjöldi ökumanna var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Það var um fimmleytið í gær sem tilkynnt var um sendibíl sem sat fastur í undirgöngum við Reykjanesbrautina, en bíllinn hafði reynst of hár fyrir göngin. Var því fenginn dráttarbíll frá Króki til að aðstoða við að losa bílinn.

Húseigandi í 101 sem hafði verið fjarverandi frá heimili sínu undanfarna viku hafi svo samband við lögreglu á fimmta tímanum í gærdag, en farið hafði verið inn í íbúð hans og verðmætum stolið á meðan hann var í burtu. Skömmu eftir miðnætti í nótt hafði lögregla svo handtekið mann sem grunaður er um innbrotið og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu í nótt vegna rannsóknarinnar.

Um eittleytið í nótt barst lögreglu svo tilkynning um líkamsárás á veitingahús í miðborginni. Þar handóku lögreglumenn mann í annarlegu ástandi sem grunaður er um að hafa ráðist á dyravörð. Var maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

mbl.is