Fylgi Sjálfstæðisflokksins aldrei minna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur aldrei mælst með lægra …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur aldrei mælst með lægra fylgi samkvæmt skoðanakönnunum MMR. mbl.is/​Hari

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei mælst lægra í skoðanakönnunum fyrirtækisins MMR, en samkvæmt niðurstöðum þeirrar nýjustu er fylgi flokksins nú 19%. Lægst fór fylgið áður í 19,5% í janúar 2016. Fylgið er mun lægra núna en í kjölfar bankahrunsins. Þannig fór fylgi Sjálfstæðisflokksins lægst samkvæmt skoðanakönnunum MMR í 24,3% í janúar 2009 í kjölfar þess að viðskiptabankarnir þrír féllu haustið áður.

Fjórðungsfylgi er hins vegar fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með um árabil, eða frá því í byrjun árs 2013 þegar fylgi flokksins tók mikla dýfu í kjölfar þess að EFTA-dómstóllinn dæmdi Íslendingum í vil í Icesave-málinu. Forysta flokksins hafði tveimur árum áður stutt þriðja Icesave-samninginn við bresk og hollensk stjórnvöld, sem síðan var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í apríl 2011.

Fram að því hafði fylgi Sjálfstæðisflokksins hins vegar mælst í kringum 37% allt frá því sumarið 2009. Fylgi Framsóknarflokksins jókst á móti mjög í byrjun árs 2013 samhliða fylgistapi Sjálfstæðisflokksins, en undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, núverandi formanns Miðflokksins, hafði flokkurinn hafði þá lagst alfarið gegn samþykkt Icesave-samninganna undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Fylgið sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR virðist að sama skapi færast yfir á núverandi flokk Sigmundar Davíðs, Miðflokkinn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar á milli mánaða um 3,1% en fylgi Miðflokksins eykst um 3,8%. Miðflokkurinn mælist með 14,4% og hefur fylgi hans aldrei mælst meira samkvæmt könnunum MMR. Einungis munar þannig 4,6% á flokkunum.

Fylgi annarra stjórnmálaflokka breytist lítið, sem rennir stoðum undir það að fylgisaukning Miðflokksins sé fyrst og fremst beint á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Líklegasta skýringin á fylgistapi Sjálfstæðisflokksins og fylgisaukningu Miðflokksins er deilan um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem stjórnvöld vilja samþykkja á Alþingi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, en Miðflokkurinn hefur beitt sér mjög gegn því.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins í síðustu þingkosningum haustið 2017 var 25,2% en fylgi Miðflokksins 10,9%. Fylgi þess síðarnefnda tók dýfu í kjölfar Klaustursmálsins svokallaða í vetur og fór niður í 5,9% samkvæmt könnunum MMR fyrir síðustu jól.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert