Hagkvæms húsnæðis senn að vænta

Á mynd er Kópavogur. Bygging hagkvæms húsnæðis svonefnds á nú …
Á mynd er Kópavogur. Bygging hagkvæms húsnæðis svonefnds á nú að geta hafist í Skerjafirði og á umdeildri lóð nærri Sjómannaskólanum. Fleiri vilyrði verða gefin út á næstu vikum. mbl.is/Sigurður Bogi

Sex aðilar munu hefja byggingu á ódýrari íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á næstu misserum ef áform og fjármögnun ganga eftir, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þeir hafa fengið fullgild lóðarvilyrði frá Reykjavíkurborg og geta því hafið framkvæmdir bráðlega, líklega á næstu 12-24 mánuðum. 

Meðal aðilanna er Vaxtarhús, sem vinnur að umdeildu verkefni á reit Sjómannaskólans, en einnig vinnur það að verkefni í Urðarseli í Úlfarsárdal. Einnig hefur Frambúð fengið fullgilt lóðarvilyrði, en það félag vinnur að byggð í Nýja Skerjafirðinum svonefnda.

Þorpið og Hoffell hafa einnig fengið fullgild lóðarvilyrði, en þeir hópar vinna að því að þróa hagkvæmt húsnæði í Gufunesi í Grafarvogi.

Skilyrðin um hagkvæmt húsnæði eru yfirleitt á þá leið að innan ákveðins tímaramma þegar íbúðirnar eru settar á sölu hafa ungir kaupendur forgang eða þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Ef viðkomandi íbúð selst ekki er hún sett á almennan markað.

Til stendur að ráðstafa reitum í Bryggjuhverfinu til sams konar uppbyggingar.

Forsaga málsins er sú að í Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn í byrjun júní 2017 voru settar fram sérstakar tillögur um ódýrari íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Áhersla var lögð á uppbyggingu á ríkislóðum sem hafa gengið til borgarinnar en einnig þróunarsvæði við Ártúnshöfða og Gufunes.

Forsaga

Stofnaður var starfshópur til að vinna að þessum tillögum og stóð hann fyrir hugmyndaleit um hagkvæmt húsnæði. Var nokkrum aðilum sem skiluðu inn hugmyndum boðið að kynna þær opinberlega.

Í apríl 2018 samþykkti borgarráð að leggja fram lóðir á sjö stöðum fyrir verkefnið. Þetta voru ríkislóðir í Skerjafirði, við Sjómannaskólann og á Veðurstofuhæð. Auk þess lagði borgin fram þróunarlóðir við Gufunes, Ártúnshöfða, Grundarhverfi á Kjalarnesi og nýtt hverfi í Úlfarsárdal.

Í maí árið 2018 var auglýst eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði í Reykjavík á þessum lóðum. Auglýst var í fjölmiðlum og á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Ákveðið var að byggingarréttur yrði auglýstur á föstu verði sem er sama upphæð og umsækjendur um stofnframlög ríkisins hafa greitt, eða 45.000 kr.

Sextán teymi skiluðu upphaflega inn hugmyndum fyrir frestinn 8. ágúst 2018. Starfshópurinn fékk til liðs við sig ráðgjafa með sérfræðiþekkingu á arkitektúr, verkfræði og fjármálum frá Trípólí arkitektum, Verkís og KPMG. Ráðgjafar hópsins fóru yfir hugmyndirnar með starfshópnum og veittu honum ráðgjöf um stigagjöfina. Þrettán sterkustu hugmyndunum var síðan boðið að kynna sín verkefni fyrir starfshópnum. Eru nú sex aðilar líklegir til að fara alla leið með verkefnin í þessari atrennu að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis að frumkvæði Reykjavíkurborgar. Líklegt er að hagkvæmt húsnæði rísi á öllum níu lóðunum sem Reykjavíkurborg hefur tekið frá fyrir slíka uppbyggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert