Heyrði óp og allt varð rafmagnslaust

Dagur Tómas, Álfheiður Edda og Matthías, útskriftaðir stærðfræðingar, hlaða í …
Dagur Tómas, Álfheiður Edda og Matthías, útskriftaðir stærðfræðingar, hlaða í sjálfu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég heyrði bara einhver óp og svo varð allt rafmagnslaust,“ segir Dagur Tómas Ásgeirsson, stærðfræðingur og bóhem, sem staddur er í miðborg Aþenu. Stór jarðskjálfti skók borgina í morgun og mældist hann 5,3 á Richter.

Dagur segist hafa verið í þann mund að panta sér borð á veitingastað þegar skjálftinn reið yfir, rafmagnið fór af og hópurinn varð frá að hverfa. Rafmagnsleysið varði þó ekki nema í um tíu mínútur og að svo búnu gat hópurinn tyllt sér og fengið sér í gogginn.

Dagur er í Aþenu ásamt 18 manna hópi útskriftarnema úr stærðfræði og eðlisfræði úr Háskóla Íslands, þar sem til stendur að fagna áfanganum. Hátíðarhöld hafa gengið ágætlega hingað til, segir Dagur og þvertekur fyrir að viðstaddir séu komnir með nóg af drykkjunni. „Annars er ég bara búinn að vera hér í tvo daga,“ bætir Dagur við. Hann hafi komið seinna en aðrir til leiks enda ekki búsettur á Íslandi. Dagur býr í París, þar sem hann leggur stund á stærðfræði, eins og áður hefur verið fjallað um hér á mbl.is

Ekki er að sjá að Akrópólís hafi farið illa út …
Ekki er að sjá að Akrópólís hafi farið illa út úr skjálftanum. Hún skartar sínu fegursta í sólinni. Parþenon-safninu, sem hluti hópsins hugðist heimsækja, var þó lokað vegna skjálftans. Ljósmynd/Aðsend

Hélt að einhver væri að stríða sér

Það kemur sér vel að hafa nýútskrifaða eðlisfræðinga í hópnum, sem vita allt um yfirvofandi skjálftahættu. Guðný Halldórsdóttir eðlisfræðingur er einn þeirra. Hún er þó ekki í Aþenu, heldur í glæsihýsi sem hópurinn leigir í Kapandriti, rétt utan borgarinnar og nær upptökum skjálftans. Guðný segist ekki hafa fundið fyrir neinum eftirskjálftum enn, en búast megi við einhverjum minni skjálftum næstu daga.

Guðný segist fyrst hafa haldið að einhver væri að hrista sólbekkinn hennar og stríða henni þar sem hún lá í makindum sínum og sleikti sólina. Það hafi þó ekki reynst raunin.

Frá veitingastaðnum sem var lokaður í um tíu mínútur vegna …
Frá veitingastaðnum sem var lokaður í um tíu mínútur vegna rafmagnsleysis. „Við þurftum bara að bíða, en á meðan kom ég að þjónunum inni í eldhúsi að drekka bjór og fagna því að allt væri óskemmt,“ segir Ívar Þormar, hagnýttur eðlisfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Ferðin hefur að öðru leyti gengið vel. „Við erum mestmegnis bara að slaka á og njóta samverunnar,“ segir Guðný og bætir við að þau séu öll orðin hörkusólbrún. Veðrið er enda gott, hiti um 30 gráður og sólríkt, þótt örfá ský hafi sést á himni síðustu daga, sem þykir óvenjulegt á þessum árstíma. Það þykir Guðnýju í sjálfu sér ágætt og tekur undir með blaðamanni að skandinavíska sumarið, 20 gráður og sól, sé kjöraðstæður mannskepnunnar.

Þau hafa þó reynt að brydda upp á stöku ferðum til tilbreytingar frá letilífinu. Borgarferðir inn í Aþenu, upp Akrópólís og til véfréttarinnar í Delfí. Á eftir verður stefnan síðan sett í veipbúð, þar sem fylla þarf á birgðir hópsins, eða þeirra sem þá iðju stunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert