Mikilvægt „að anda með nefinu“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

„Miklir hagsmunir geta auðvitað verið fyrir okkur í því að sumar jarðir séu í einhvers konar nýtingu. Það mætti auðvitað setja einhverjar reglur um það hvaða starfsemi eigi að vera á hvaða jörðum. En það ætti þá frekar að vera á könnu sveitarfélaganna.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vegna umræðunnar um jarðakaup erlendra ríkisborgara hér á landi og hugmynda um að setja skilyrði í þeim efnum ekki aðeins um nýtingu jarðanna heldur einnig um fasta búsetu og lögheimili. Slík skilyrði þýddu að einstaklingar mættu aðeins eiga eina jörð, sem þyrfti þá einnig að gilda um íslenska ríkisborgara. Ein regla yrði að gilda um alla í samræmi við EES-samninginn.

„Slíkar reglur myndu skipta marga Íslendinga máli. Það má heldur ekki gleyma því að þetta snýst ekki bara um auðmenn. Þannig að þetta er ekki alveg einfalt,“ segir Brynjar. Þannig setji hann stórt spurningamerki við hugmyndir um skyldu til þess að eiga lögheimili og að hafa búsetu á jörðum en hins vegar megi ræða skilyrði varðandi nýtingu. Mikilvægt sé að taka umræðu um máli en menn verði „að anda með nefinu“.

Brynjar segir að eðlilegast sé að þessi mál séu á könnu þeirra sem fari með skipulagsmál, það er sveitarfélaganna. „Ég sé ekki að rétt sé að setja einhver sérlög í þessum efnum. Það er hægt að takmarka þetta með breytingum á gildandi lögum. Það er að menn safni ekki slíkum eignum en ætli síðan ekkert að gera við þær. Það eru fyrst og fremst sveitarfélögin sem geta stjórnað þessu að mínu mati.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert