Sér ekki eftir ákvörðunum Isavia

Sveinbjörn segir stjórnendur Isavia alltaf hafa verið meðvitaða um að …
Sveinbjörn segir stjórnendur Isavia alltaf hafa verið meðvitaða um að það væri óvissa sem fælist í þessu máli. Tekin hafi verið meðvituð ákvörðun og áhætta. mbl.is/Hari

„Ég lít svo á að vélin sé farin út af röngum dómi en ekki út af því að við höfum verið að beita þessari kyrrsetningarheimild með röngum hætti. Vélin er farin, ekki af því að við gerðum eitthvað rangt, heldur út af því að héraðsdómur úrskurðaði með röngum hætti,“ segir Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia í samtali við mbl.is.

Flugvél flugvélaleigurisans ALC flaug af landi brott í morgun og þar með trygging Isavia fyrir 2,2 milljarða uppsafnaðri skuld WOW air við Keflavíkurflugvöll.

Sveinbjörn tók við starfi forstjóra Isavia eftir að Björn Óli Hauksson lét af störfum í apríl, fyrst til bráðabirgða, en síðan var hann ráðinn til frambúðar 13. júní síðastliðinn.

Hann var áður stjórnandi fjármálasviðs Isavia og segir að þrátt fyrir að hann hafi staðið nærri margumræddum og umdeildum ákvörðunum um að leyfa skuldum WOW air að safnast upp um nokkurt skeið, líti hann svo á að hann geti „algjörlega“ haldið áfram að leiða félagið, þrátt fyrir að minni líkur séu nú á því að þessi skuld innheimtist en var áður en að vélin flaug úr landi, sem sé afleiðing af röngum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málinu.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Ljósmynd/Isavia

„Það að tengja það við að einhver þurfi að sæta einhverri ábyrgð, ég tel að svo sé alls ekki,“ segir Sveinbjörn.

Hann segir rangt að tala um þá greiðsluáætlun sem WOW air og Isavia komust að samkomulagi um í októbermánuði sem „samkomulag“ eins og blaðamaður reyndi að gera, heldur fremur yfirlýsingu WOW air um að flugfélagið myndi standa við þau skilyrði sem Isavia hefði sett þeim.

Í þessari yfirlýsingu WOW air fólst að ein þota félagsins myndi ávallt vera til taks á Keflavíkurflugvelli eða með staðfestan komutíma þangað, sem trygging fyrir skuldinni.

„Þetta snýst um það að við erum þarna með flugfélag sem er komið í vanskil og er í greiðsluerfiðleikum og þau nálgast okkur og leggja til að þau geri upp uppsöfnuð vanskil með greiðsluáætlun. […] Þetta er eitthvað sem ég kom að og þrátt fyrir að ég hafi ekki verið forstjóri á þeim tíma þá stóð ég þessu máli nálægt allan tímann,“ segir Sveinbjörn.

Hann segist ekki sjá eftir því að staðið hafi verið málum með þessum hætti. „Alls ekki. Það sem náttúrlega gerist á öllum þessum tíma þegar WOW air er að ganga í gegnum sína endurfjármögnun er það að það liggja alltaf fyrir ákveðnar upplýsingar á hverjum einstökum tíma og það eru teknar ákvarðanir byggðar á þeim upplýsingum,“ segir forstjórinn.

Enginn vildi höggva í WOW air

„Það vildi enginn vera fyrstur til þess að höggva í WOW air. Þegar ég horfi til baka þá efast ég um að ég hefði viljað gera hlutina með einhverjum öðrum hætti, þegar upp er staðið,“ segir Sveinbjörn, sem telur allar ákvarðanir Isavia í tengslum við skuldir WOW air og kyrrsetningu þotunnar hafi verið „teknar með mjög vönduðum og upplýstum hætti“.

Hann leggur áherslu á að Isavia taki sínar ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum, en ekki á þeim forsendum að opinbera hlutafélagið hafi eitthvað hlutverk sem opinber aðili. Í því samhengi nefnir hann að Isavia hafi haft tvo milljarða í tekjur af farþegum WOW air í gegnum verslun og veitingarekstur á Keflavíkurflugvelli á síðustu níu mánuðum í lífi flugfélagsins.

Fjólubláa vélin flaug af landi brott í morgun.
Fjólubláa vélin flaug af landi brott í morgun. mbl.is/Hari

„Þannig að við erum að fá verulegan pening af rekstri félagsins inn á bankareikninginn, þó að þessir tveir milljarðar náist ekki að innheimta. Staða Isavia er alltaf betri, heldur en ef við hefðum bara gripið inn í strax síðastliðið haust með kyrrsetningu,“ segir Sveinbjörn.

Hann útvíkkar síðan þessa hugsun: „Það er ekki okkar ábyrgð að standa vörð um íslenska ferðaþjónustu, en ef við lítum til þess að ef að WOW air hefði ekki verið að fljúga hingað í vetur hefði það haft veruleg áhrif á íslenska ferðaþjónustu yfir erfiðasta árstímann. Ég held að allir sem komu að þessum ákvörðunum, hvort sem það erum við eða flugvélaleigusalar eða kröfuhafar eða annað slíkt, hafi bara verið að gera sitt besta og vonast til þess að úr myndi leysast,“ segi Sveinbjörn.

Mikilvægt að „rangur“ úrskurður standi ekki

Forstjórinn segir að nú þegar vélin sé farin liggi ekki ljóst fyrir hvort Landsréttur muni taka kæru Isavia á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur til umfjöllunar. Það sé ekki sjálfgefið, fyrst að vélin sé ekki lengur staðsett á Keflavíkurflugvelli.

„En það er svo mikilvægt fyrir okkur að þessi úrskurður héraðsdóms, af því að hann er að okkar mati rangur, að hann standi ekki sem einhver endanlegur úrskurður. Við höfum alveg leyfi til þess að fá úr því skorið fyrir dómstólum, á æðra dómstigi, hvort að við höfum verið að beita þessari heimild rétt eða rangt,“ segir Sveinbjörn.

Ekki augljóst að ALC geti sótt bætur

Hann segist ósammála því að augljóst sé að ALC geti sótt skaðabætur fyrir það að vélin hafi verið föst á Keflavíkurflugvelli síðan í mars í stað þess að vera á flugi fyrir annað flugfélag.

„Ég hef ekki séð hvaða skaðabótakröfu þau ætla að gera og ég tel rétt að hafa í huga að við erum ekkert alveg sammála því að þau geti sótt þær bætur sem að þau vilja því að það hvílir skylda á aðilum um að takmarka sitt tjón að öllu ráði. Það er alveg ljóst að þau gerðu það ekki á þeim tíma sem vélin var kyrrsett.

Við vorum margoft búin að bjóða upp á það að þau gætu fengið vélina, til dæmis í skiptum fyrir bankaábyrgð og það þyrfti enga millifærslu eða peninga til að gera það. Við reyndum eins og við gátum að finna auðveldu leiðina fyrir þau en þau voru ekki reiðubúin til þess þannig að það er allavega langt frá því augljóst að þau eigi rétt á einhverjum bótum,“ segir Sveinbjörn.

Alltaf meðvituð um óvissu og áhættu

Hann segir stjórnendur Isavia alltaf hafa verið meðvitaða um að það væri óvissa sem fælist í þessu máli, sem úr þyrfti að leysa fyrir dómstólum.

„Þegar mál fara fyrir dómstóla geta þau haldið til hægri eða vinstri eins og við höfum séð svo greinilega núna. Þetta var meðvituð ákvörðun og meðvituð áhætta,“ segir Sveinbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert