Stöðvi tafarlaust innheimtu smálánaskulda

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Neytendasamtökin skora á Almenna innheimtu ehf. að stöðva tafarlaust innheimtu á smálánaskuldum sem byggja á ólögmætum lánum. Fyrir liggur að vextir á smálánum eru margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.

Þar segir enn fremur að þrátt fyrir að vextir á smálánum séu margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum séu lántakendur krafðir um endurgreiðslu á ólöglegum vöxtum. Ekkert virðist fá stöðvað innheimtufyrirtækið sem hafi tekið að sér að innheimta ólöglegu lánin.

Fyrirtækinu virðist fyrirmunað að senda lántakendum skýra sundurliðin á kröfum skipt niður í lánsupphæð, vaxtakostnað og innheimtukostnað þrátt fyrir fjölda beiðna þess efnis. Fyrirtækið gefur sér allt að þrjá mánuði til að veita þessar upplýsingar sem lánveitendur eiga þó skýlausan rétt á,“ kemur fram í tilkynningu Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin telja í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vanskilakostnað á kröfur sem byggja á ólögmætum lánveitingum og að slíkt geti ekki verið löglegt.

Neytendasamtökin hafa undir höndum gögn sem sýna að heildarendurgreiðslur lántakenda eru mun hærri en lög leyfa, jafnvel þótt miðað sé við hæstu löglegu vexti. Þrátt fyrir það heldur fyrirtækið áfram innheimtu sinni og hótunum um skráningu á vanskilaskrá Creditinfo. Neytendasamtökin ítreka þau tilmæli sín til lántakenda sem greitt hafa hærri upphæð til baka en sem nemur lánsupphæð að fara fram á skýra sundurliðun frá Almennri innheimtu ehf. 

Samtökin hafa ítrekað komið þessu á framfæri við Almenna innheimtu, án viðbragða. 

Eftirlit með starfsemi Almennrar innheimtu ehf. á að vera í höndum Lögmannafélags Íslands. Neytendasamtökin sendu erindi til úrskurðarnefndar lögmanna fyrir hóp vegna starfshátta Almennrar innheimtu ehf. en því var vísað frá á þeirri forsendu að samtökin væru ekki aðili máls. Það virðist því vera sem enginn hafi raunverulegt eftirlit með starfseminni og er það að mati Neytendasamtakanna ólíðandi.

mbl.is