„Stundum þarf að gagnrýna forsetann“

Dr. Munib Younan.
Dr. Munib Younan. mbl.is/Ásdís

„Ég kunni að meta það,“ segir dr. Munib Younan, biskup frá Palestínu sem býr í suðurhluta Jerúsalem, þar sem hann ræðir um það þegar Hatarar drógu upp fána Palestínu í Eurovision-söngvakeppninni í maí. Younan mun halda erindi á Skálholtshátíð í fyrramálið um starf sitt í Mið-Austurlöndum.

Younan, sem er fyrrverandi forseti Lútherska heimssambandsins, er það sem mætti kalla „Íslandsvinur“ en þetta er þriðja heimsókn biskupsins hingað. Hann er þekktur fyrir að vera maður samstarfs og samvinnu og nýtur virðingar fyrir að hafa unnið að samstarfi trúarhreyfinga og kirkjudeilda. 

Segir kirkjuna þurfa að leita til allra

Íslendingar verða seint sakaðir um að vera ofsatrúaðir en Younan segir að það verði að spyrja hvers vegna fólkið trúi ekki á Guð.

„Ég virði fólk sem útskýrir sitt mál. Er það vegna þess að það hefur orðið fyrir vonbrigðum með kirkjuna? Er það vegna þess að það trúir í raun og veru ekki? Stundum trúir fólk innst inni en hefur orðið fyrir vonbrigðum eða vill ekki opinbera trú sína,“ segir Younan þegar trúleysi Íslendinga er borið undir hann. 

„Það er skylda kirkjunnar okkar að sjá ekki einungis um þegna kirkjunnar heldur alla; jafnvel þá sem trúa ekki. Við þurfum að leita til þeirra,“ bætir biskupinn við.

Yfirskrift erindisins í Skálholti í fyrramálið er „Just Wars and Just Peace: What is the role of religion in reconciliation?“ 

Younan útskýrir að margir segi honum að kirkjan eigi ekki að tjá sig um almenn „ókirkjuleg“ mál, til að mynda tengd pólitík. „Að mínu mati er kirkjan mikilvægur hluti af samfélaginu og hún ætti tjá sig um gildi: jafnrétti kynjanna, mannréttindi og frelsi.“

Verða að þora að taka slaginn

Biskupinn segir kirkjuna stundum hrædda við að taka þann slag og láta í sér heyra varðandi áðurnefnd málefni. „Við erum hluti af samfélaginu og megum ekki vera hrædd að tala um stjórnmálin, sérstaklega þegar stjórnmálin eru orðin ómannúðleg,“ segir Younan.

Spurður hvort kirkjan vestanhafs ætti að gagnrýna þarlendan forseta, sem þykir ekki vera fremstur á sviði mannréttinda eða jafnréttis, segir Younan að hann sjálfur tilheyri ekki neinum stjórnmálaflokki:

„Ég reyni bara að gera fólki gott. Stundum þarf að gagnrýna forsetann, ekki vegna þess að þú tilheyrir öðrum flokki heldur vegna þess að mannúð og réttlæti keyrir þig áfram. Þannig á kirkjan að starfa. Jafnvel þótt við séum uppnefndir eða skammaðir verðum við að tala frá hjartanu og segja það sem er rétt.“

„Voruð ekki í landi þar sem allt er í himnalagi“

Talið berst að heimkynnum Younan og blaðamaður biður hann um að slá Palestínu inn á kortaforriti Google. Eins og einhverjir kannast eflaust við er Palestína hvergi sjáanleg þar, einungis Ísrael, en biskupinn bendir á suðurhluta Jerúsalem.

Blaðamaður bendir Younan á að hann hafi verið í Tel Aviv fyrir tveimur mánuðum, þar sem atriði Íslands í Eurovision vakti mikla athygli. Biskupinn kunni að meta framgöngu Hatara á úrslitakvöldinu, þar sem liðsmenn hljómsveitarinnar drógu upp fána Palestínu þegar stigin voru kynnt. 

„Þið voruð ekki í landi þar sem allt er í himnalagi, það eru ekki bara Ísraelar í landinu heldur líka Palestínumenn,“ segir biskupinn. 

Younan talaði enn fremur um að honum hefði þótt Hatarar benda á að Palestínumenn þyrftu jafnrétti og tveggja ríkja lausn væri leiðin til þess. „Jerúsalem ætti að vera höfuðborg tveggja ríkja. Vesturhlutinn ætti að vera höfuðborg Ísraels og austurhlutinn höfuðborg Palestínu.“

Hann kveðst hafa heyrt gagnrýni á þá leið að það ætti ekki að blanda saman stjórnmálum og söngvakeppninni. Enn fremur hafi Hatarar verið sakaðir um að „drepa“ stemninguna í tengslum við keppnina „Kommon, Eurovision er pólitísk keppni,“ segir biskupinn. 

„Meginvandamál Mið-Austurlanda eru átökin í Ísrael. Ef þau verða leyst verður friður í öllum Mið-Austurlöndum,“ segir Younan og fannst Hatarar benda á þetta með gjörningi sínum.

„Þess vegna voru margir Palestínumenn, og Ísraelar, ánægðir með framgöngu Hatara. Stundum verðum við að minna heiminn á það sem heimurinn vill ekki vera minntur á.“

Kann ekki við minnihlutatalið

Younan segist njóta þess að vera biskup í Palestínu, hvar lítill hluti íbúa er kristinnar trúar. „Ég nýt þess. Ég er kannski eins og Íslendingur að því leyti að söfnuðurinn er fámennur,“ segir biskupinn og heldur áfram:

„Við viljum ekki kalla okkur minnihluta vegna þess að við erum mikilvægur hluti fólksins. Við erum innan við 2% af íbúafjöldanum.“ Hann talar um að ástandið í Palestínu sé slæmt, fjöldi ungs fólks sé atvinnulaust og margir reyni að yfirgefa svæðið.

„Okkar verkefni er að byggja samfélagið upp sem þegnar landsins. Ég kann ekki við minnihlutatalið. Því meira sem þú hugsar um þig sem minnihluta því minna verður hlutverk þitt í samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert