„Þessi óreiða bjó til einræðisherra“

Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér,“ segir Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, á Facebook-síðu sinni um umræðu í röðum Pírata um samstarf í þingflokki flokksins við Birgittu Jónsdóttur. Hafa þingmenn flokksins dregið upp dökka mynd af samskiptum sínum við hana í þingflokknum.

Hafnað var í atkvæðagreiðslu á félagsfundi hjá Pírötum í vikunni að Birgitta tæki sæti í trúnaðarráði flokksins. Fyrir atkvæðagreiðsluna fór Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hörðum orðum um reynslu sína af samstarfi við hana. Sagði hann Birgittu stuðla að ósætti en ekki sátt, grafa undan samherjum sem hún teldi ógna stöðu sinni og hóta þeim. Þá færi hún í fýlu ef hún fengi ekki sínu framgengt.

Tilefni skrifa Ástu Guðrúnar er viðtal Stundarinnar við Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingmann Pírata, þar sem hún segir Birgittu ekki þolanda í þessu máli heldur geranda. Tekur hún undir með Helga Hrafni og sakar Birgittu um að hafa beitt samherja sína andlegu ofbeldi, til að mynda með því að gera lítið úr þeim.

„Ég er með kökk í hálsinum af kvíða eftir að hafa lesið þetta viðtal. Þetta ýfir upp áfallastreituna sem ég hef verið að vinna við síðan ég hætti á þingi. Þetta lýsir bara ágætlega því sem ég þurfti að díla við í tvö ár af samstarfi við þessa konu, sem var það erfitt að það þurfti að kalla til vinnustaðasálfræðing. Deila og drottna, skapa sundrungu. Að ráða ríkjum í óreiðunni,“ segir Ásta Guðrún ennfremur.

„Flatur strúktur á ekki að þýða neinn strúktur - en fyrir hana, þá þýddi flatur strúktur óreiða, að það væri hægt að færa mörkin endalaust til, að setja óraunverulegar kröfur á aðra. Aðrar reglur gilda um hana en aðra. Þessi óreiða bjó til einræðisherra þar sem hinn frekasti fékk að ráða, og þegar það var reynt að spyrna við því, þá fór allt í uppnám,“ segir hún enn fremur. Málið núna ýfði þannig upp gömul sár.

„Þetta er kannski ákveðið uppgjör, sem hjá mér byrjaði með því að labba inn í þingflokk sem var svo þrunginn ósætti að það þurfti að kalla á vinnustaðasálfræðing, ein besta ákvörðun sem ég tók á mínum stutta ferli sem þingmaður. Ég er enn að vinna mig úr þessu tímabili, sem held ég verði með erfiðustu árum lífs míns, enda erfitt að toppa. Það að sjá aðra tala eins og úr mínu hjarta um þetta samstarf er ákveðin viðurkenning á því sem ég upplifði. Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér.“

mbl.is