„Vona að þetta séu bara eftirhreytur“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Greining E.coli bakteríunnar í tveimur fullorðnum einstaklingum sem greint var frá í dag kom heilbrigðisyfirvöldum á óvart, bæði að smit hafi komið upp eftir að gripið var til aðgerða 4. júlí sem og að bakterían væri útbreiddari en áður hafi verið talið. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í samtali við mbl.is. Eftir samtalið kom ný tilkynning um sterkan grun á að þriggja ára barn hefði einnig smitast.

Fram kom í tilkynningu frá Landslæknisembættinu, Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands að annar einstaklingurinn sem smitaðist starfi í Efstadal. Viðkom­andi hef­ur ekki starfað við mat­væla­fram­leiðslu eða af­greiðslu mat­væla og hef­ur því ekki sér­staka teng­ingu við hina sýktu. Hinn ein­stak­ling­ur­inn sem sýkt­ist er er­lend­ur ferðamaður sem kom ekki til lands­ins fyrr en  5. júlí, en gripið hafði verið til aðgerða í Efsta­dal 4. júlí sem áttu að upp­ræta mögu­legt smit. Ferðamaður­inn heim­sótti Efsta­dal 8. júlí og neytti þar mat­væla, þar á meðal íss, en var ekki í sam­neyti við dýr­in á staðnum. Hann veikt­ist síðan 11. júlí. 

Þórólfur segir að fólk geti verið með bakteríuna og um leið einkennalaust, en að það sé ekki algengt. Því hafi greiningin í starfsmanninum núna komið á óvart. Varðandi ferðamanninn segir Þórólfur að þetta sýni að ekki þurfi mikið til að sýkja menn. Þannig segir hann að almennt með E.coli bakteríusýkingar gildi að það þurfi ekki margar bakteríur til að fólk veikist. Bakterían þarf að komast ofan í meltingarveg, þannig að algengast er að hún berist í gegnum matvæli. Getur það bæði verið vatn eða matur, en til viðbótar getur fólk fengið bakteríuna á putta með snertingu og svo til dæmis stungið puttanum upp í sig og þannig smitast.

E. coli faraldurinn mun eiga rætur á bænum Efstadal II …
E. coli faraldurinn mun eiga rætur á bænum Efstadal II í Bláskógabyggð. mbl.is/Hari

Heilbrigðiseftirlitið og MAST fóru fram á aðgerðir að Efstadal vegna smitanna sem komu upp núna og eiga þær aðgerðir að koma í veg fyrir frekari smit. Meðal annars á að loka fyrir sölu á ís þangað til alþrif og sótthreinsun hefur farið fram. Sama á við um veitingastað og aðlæg rými auk þess sem aðgengi að dýrum verður áfram lokað. Þá munu starfsmenn við matvæli þurfa að sýna fram á vottorð um að hafa ekki smitast af E.coli.

Spurður hvort þessar aðgerðir séu nægjanlegar til að stöðva frekari smit segir Þórólfur að hann hafi enga ástæðu til að draga það í efa. „Það er mjög stór aðgerð ef stað yrði lokað. Ég styð þessar aðgerðir,“ segir hann og bætir við „Þetta ætti að duga til að stoppa frekari dreifingu. Þá segir hann að landlæknisembættið muni áfram fylgjast með þeim tilfellum sem greinast, en að tilfellin núna séu færri en kúfurinn sem kom upphaflega. „Ég vona að þetta séu bara eftirhreytur og þetta fari að stoppa núna,“ segir Þórólfur, en embættið mun áfram vera á tánum og endurskoða aðgerðir ef nýjar upplýsingar koma fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert