Átti í ágreiningi vopnaður hnífi

mbl.is/Eggert

Horfa þurfti í ýmis horn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi og í nótt. Í mörgum tilfellum vegna einstaklinga undir áhrifum vímuefna.

Skömmu fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi höfðu lögregluþjónar afskipti af ölvuðum karlmanni í Kópavogi sem átt hafði í ágreiningi vopnaður hnífi. Var hann handtekinn vegna gruns um brot á vopnalögum, líkamsárás og eignaspjöll.

Húsráðandi í Reykjavík vaknaði um klukkan fjögur í nótt við það að ókunnugur karlmaður var í íbúð hans. Maðurinn var sagður ölvaður og yfirgaf íbúðina strax án þess að taka neitt. Var hann sagður hafa ekið á brott í bifreið en fannst ekki þrátt fyrir leit.

Fleiri mál komu upp þar sem annað hvort ölvun eða fíkniefni eða hvort tveggja kom við sögu. Einkum þar sem ekið var undir áhrifum slíkra vímugjafa.

mbl.is