Dansar þegar nýja nýrað kemur

María Dungal fær loksins nýtt nýra í haust. Þá ætlar …
María Dungal fær loksins nýtt nýra í haust. Þá ætlar hún að dansa. mbl.is/Hari

„Ég ætla að mæta í ræktina á hverum einasta degi. Ég er að hugsa um að fara á einhvers konar námskeið eða læra einhvers konar dansa. Ég ætla að fara út að borða.“ Þetta segir María Dungal framkvæmdastjóri í samtali við mbl.is sem í gær fékk símtalið sem hún hefur beðið eftir um árabil, að nýrnagjafi sé fundin og að tími í aðgerð sé bókaður 3. september næstkomandi. „Það er bara ekkert hægt að lýsa þessu. Í fyrsta sinn í fjögur ár sofnaði ég glöð en ekki áhyggjufull.“

María kunngjörði fregnirnar meðal vina á fésbókarsíðu sinni í gær og sagði frá því að hún hefði verið stödd á kaffihúsi ásamt Karl Pétri Jónssyni, sem sjálfur er nýrnaþegi, og náði myndum af gleðinni sem kom yfir Maríu þegar hún fékk símtalið góða. 

Var að hugsa um örorkubætur

María hefur um árabil hrjáðst af nýrnabilun, og sagði frá raunum sínum tengdum þessum sjúkdómi í ítarlegu viðtali við Sunnudagsmoggann síðasta haust. Sagði hún þá m.a. frá því að ellefu manns hefðu boðið henni nýra. Kröfurnar væru strangar um gott heilsufar gjafa. Aðeins fjórir gjafanna hefðu verið hæfir en voru á endanum útilokaðir þar sem María var með mótefni í blóði og gat því ekki tekið við nýra frá þeim.

Sagði hún einnig frá því að vegna veikindanna hefði hún dregið úr vinnu og hvernig áhrif sjúkdómurinn hefði á daglegt líf hennar, m.a. hversu orkulítil hún væri. „Það er skrítin tilfinning að vakna á morgnana, fara í sturtu, klæða sig og fara svo dauðuppgefin út í bíl að keyra í vinnuna og svíða í lærin þegar maður gengur upp fáar tröppur að vinnustaðnum,“ sagði hún þá. 

Spurð hvað hafi gerst frá því að hún ræddi við Sunnudagsmoggann í haust segir María að þá hafi hún verið að byrja í kviðskilun, en að það hafi gengið „svona upp og niður“. „Ég lenti í alls konar vandamálum með það og var orðin mjög veik á tímabili, og var að hugsa um að hætta að vinna og fara á örorkubætur. Þannig var staðan orðin á mér í apríl“.  Segir hún að þá hafi eitthvað óvænt gerst, ekki sé vitað nákvæmlega hvað, og frá því hafi líkaminn ekki þurft á skiluninni að halda. „Þetta er mjög sjaldgæft. Allt í einu gat ég hætt í skilun, fyrir um þremur mánuðum, og er hægt og rólega búin að vera að ná upp betri orku. En ég sá bara fram á margra ára bið.“ 

María Dungal ásamt börnum sínum, Gabríelu og Ísak.
María Dungal ásamt börnum sínum, Gabríelu og Ísak. mbl.is/Hari

„Öll fjölskyldan búin að bjóða mér nýra“

Spurð um mögulega nýrnagjafa segir María að sextán manns hafi boðið sig fram en hafi verið hafnað. „Annað hvort vegna einhvers í heilsufari þeirra eða vegna þess að ég er með mótefni í blóði sem myndi vinna gegn nýranu í viðkomandi aðila,“ útskýrir hún. Spurð um þann sem mun í september gefa Maríu annað nýrað sitt, Sigurð Arnar Sigurþórsson, segir María: „Ég vissi bara að einhver væri í rannsókn, hann var búinn að vera allavega í tvo mánuði rannsóknum, en ég vissi ekki hver þetta var. Hann gerði þetta undir nafnleynd til að byrja með.“ Segist María þekkja foreldra Sigurðar, föður hans og stjúpmóður, sem bæði hafi boðið henni nýra eftir að hafa þekkt hana í þrjá mánuði. „Ég átti ekki til orð, vegna þess hve ég þekkti þau lítið.“ Það hafi hins vegar ekki gengið upp en Sigurður ofannefndur hafi einnig boðið nýra og það hafi nú gengið upp, eins og áður segir. „Mér finnst þetta alveg magnað. Öll fjölskyldan búin að bjóða mér nýra.“

Eins og eðlilegt er lifnar yfir Maríu þegar blaðamaður spyr hana hvað hún ætlar að gera þegar nýja nýrað er komið í og hún hefur náð fyrri kröftum. „Ég er með lista í hausnum yfir allt sem ég ætla að gera. Þegar sonur minn spurði hvað væri efst á listanum sagði ég strax: „Ég ætla að mæta í ræktina,“ sem er ekki mér líkt. En ég hef varla getað hreyft mig í fjögur ár. Ég hef varla getað farið í göngutúra. Ég er búin að fara tvisvar í bíó á seinustu tveimur árum. Ég ætla að fara í heimsóknir og bjóða fólki heim. Ég ætla ekki að fara í fallhlífastökk,“ segir hún og hlær.

Aðgerðina fer María í 3.september næstkomandi, eins og áður segir, og mun að Maríu sögn um þrjá til fjóra tíma. Segir María að þá taki við nokkrir dagar á spítala, en margir finni fyrir bættri líðan strax daginn eftir aðgerð. „Þá hættir maður að vera grár í framan og alltaf ískalt,“ segir hún full tilhlökkunar. 

mbl.is