Eignarhaldið virðist vera á huldu

Kort/mbl.is

Hér um bil 60 jarðir á Íslandi eru komnar í eigu erlendra fjárfesta og viðskiptafélaga þeirra. Talningin byggist á fasteignaskrá og fréttum og gæti talan verið hærri. Með kaupunum hafa fjárfestarnir eignast stór svæði í nokkrum landshlutum og tilheyrandi veiðiréttindi.

Fjárfestirinn James Arthur Ratcliffe, sem talinn er ríkasti maður Bretlands, er sagður að baki uppkaupum á tugum jarða. Kaupin eru gerð í gegnum fjölda félaga. Eignir Ratcliffes eru metnar á tæpa 1.500 milljarða króna, eða sem svarar hálfri landsframleiðslu Íslands.

Tengist félagi í Bretlandi

Breska félagið Halicilla Limited er skráð fyrir hlut í nokkrum félaganna sem eiga jarðir. Samkvæmt bresku fyrirtækjaskránni er Ratcliffe eini hluthafinn í Halicilla Limited.

Ratcliffe er jafnframt sagður að baki jarðakaupum fjölda félaga sem eru í eigu félagsins Dylan Holding S.A. í Lúxemborg. Eins og rakið er í Morgunblaðinu í dag virðist eignarhald félagsins í Lúxemborg hins vegar hvergi skráð og virðist því ekki vera hægt að fullyrða um það.

kort/mbl.is

Fjölmargir forystumenn í íslenskum stjórnmálum hafa lýst þeirri skoðun sinni opinberlega á undanförnum árum að nauðsynlegt sé að taka umfangsmikil jarðakaup hér á landi til skoðunar með það fyrir augum að setja þeim ákveðnar skorður. Þá ekki síst forystumenn núverandi ríkisstjórnarflokka. Þrátt fyrir það verður ekki séð að mikið hafi verið gert í þeim efnum.

Strangari reglur en hér

Jarðakaupum erlendra aðila eru settar strangari skorður í Danmörku og Noregi en á Íslandi.

Þannig kemur fram í Morgunblaðinu í dag að litlar kröfur séu gerðar um eignarhald bújarða hér á landi. Samkvæmt meginreglu 1. greinar laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem gilda m.a. um land á Íslandi, er áskilið að menn megi ekki öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum nema þeir séu íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi.

EES-borgarar njóta samt sem áður þess sama réttar hér á landi á grundvelli EES-samningsins og þá eru einnig hliðstæðar kröfur gerðar um þá sem koma að eignarhaldi fasteigna í gegnum félög, ýmist alla hluthafana eða meirihluta þeirra.

kort/mbl.is

Dylan Holding S.A. í Lúxemborg er skráð fyrir fjölda jarða sem sagðar eru í eigu Ratcliffes. Dylan Holding er þannig móðurfélag tæplega 20 íslenskra félaga sem skráð eru sem eigendur jarða. Eignarhluturinn er breytilegur en yfirleitt er um 100% eignarhlut að ræða.

Á meðfylgjandi kortum er að finna dæmi um jarðir sem sagðar eru í eigu Ratcliffes og viðskiptafélaga á Íslandi. Grafið byggist að hluta á upplýsingum sem aflað var í fyrrasumar. Athugun á eignarhaldi um 70 jarða á Austurlandi í gær benti til að jörðin Brúarland væri sú eina sem bæst hefði í eignasafnið. Þá eru einnig kort sem sýna jarðir annarra erlendra auðmanna hér á landi.

Samkvæmt afsali sem var fært inn hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra síðastliðinn miðvikudag fylgdi með 100% eignarhlutur í jörðinni Brúarlandi, Svalbarðshreppi, ásamt öllu sem jörðinni fylgir og fylgja ber, og 25% eignarhluti í jörðinni Gunnarsstöðum I, ásamt öllu sem eignarhlutnum fylgir. Með Brúarlandi fylgdu 2/6 af veiðirétti Gunnarsstaða í Hafralónsá. Þá var vísað í upphaflegt heimildarskjal jarðarhlutans úr Gunnarsstöðum þar sem meðal annars væri lýst ½ veiðirétti jarðarinnar í Hafralónsá.

Ásamt þessum kaupum hafa bandarískir fjárfestar bætt við sig jörð austur af Fljótunum. Um þau kaup og fleiri viðskipti með jarðir er fjallað í rammagrein á næstu síðu.

Réttindi við laxveiðiár

Með kaupum sínum á jörðum á Austurlandi hafa dótturfélög Dylan Holding tryggt sér veiðiréttindi við laxveiðiár. Má þar nefna Hafralónsá, Selá, Vesturá, Hofsá, Sunnudalsá, Svalbarðsá, Garðá og Hölkná.

En hverjir eiga Dylan Holding, félagið sem er að kaupa jarðirnar í gegnum íslensk dótturfélög?

Kort/mbl.is

Þegar leitað var í fyrirtækjaskrá Creditinfo fundust hvorki upplýsingar um hluthafa né eignatengsl Dylan Holding á Íslandi. Hins vegar kom gömul skráning félagsins á Íslandi í leitirnar. Sendandi var Eggert J. Hilmarsson, fulltrúi Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem sendi Hagstofu Íslands staðfestingu á skráningu félagsins á Íslandi hinn 16. janúar 2001.
„Ástæðan fyrir beiðninni eru fjárfestingar á Íslandi og við þurfum að hafa kennitölu þegar við höfum viðskipti við bankastofnanir á Íslandi,“ skrifaði Eggert í umsókninni.

Með fylgdu stofnskjöl í Lúxemborg. Kom þar fram að Eggert væri fulltrúi félaganna Waverton Group Limited og Starbrook International Limited í stjórn Dylan Holding. Bæði félögin voru skráð á Tortóla á Bresku jómfrúaeyjum. Þau komu víðar við sögu í útrás Kaupþings.

Trúnaður um hluthafa

Athugun á 35 skjölum Dylan Holding í fyrirtækjaskrá Lúxemborgar bendir til að hvergi sé getið um hluthafa og þar með eigendur.

Síðasta sumar heimsótti Morgunblaðið fyrirtækjaskrá Lúxemborgar. Spurt var hvort mögulegt væri fyrir blaðið að fá upplýsingar um hluthafa í Dylan Holding S.A. Fyrirspurnin vakti sýnilega undran starfsmanns fyrirtækjaskrárinnar. Svarið var stutt: Upplýsingar um hluthafa í S.A.-félögum eru aldrei veittar. 

Það er því á huldu hverjir eiga félag sem orðið er umsvifamikið í íslenskum laxveiðiám. Ratcliffe er sagður að baki fjárfestingunni en það virðist hvergi formlega skráð.

Reist á grunni Kaupþings

Morgunblaðið leit næst inn í höfuðstöðvar Banque Havilland í Lúxemborg. Þær eru við Rue de Kennedy 35a í fjármálahverfinu í Lúxemborg en gatan er nefnd eftir John F. Kennedy Bandaríkjaforseta. Havilland var reistur á grunni Kaupþings eftir fall bankans haustið 2008. Ástæðan fyrir heimsókninni er að félagið Dylan Holding var skráð hjá Kaupþingi og síðar hjá Banque Havilland. Það virðist ekki hafa verið skráð hjá öðrum banka. Stórt málverk eftir Tolla í anddyri Banque Havilland minnir á Ísland.

Kort/mbl.is

Banque Havilland hefur jafnframt skrifstofur í Mónakó, Lundúnum, Liechtenstein, Dúbaí og Sviss. Í Mónakó er að finna aðila sem einnig eru áhugasamir um íslenska náttúru.

Fyrirmenni við opnunina

Banque Havilland var opnaður að viðstöddum fyrirmennum mánudaginn 28. september 2009. Meðal annars var Luc Frieden, fjármálaráðherra Lúxemborgar, viðstaddur. Fram kom í tilkynningu frá bankanum að David Rowland væri skráður hluthafi í bankanum. Hann hefði boðið gesti velkomna áður en hann gaf Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra nýja bankans, orðið.

Fjallað er um stofnun Banque Havilland í bókinni Kaupthinking eftir Þórð Snæ Júlíusson blaðamann. Hann skrifar að annars vegar hafi verið stofnaður „góður“ banki úr Kaupþingi í Lúxemborg og hins vegar „slæmur“ banki með lakari eignum. Banque Havilland hafi verið góði bankinn.

Þórður Snær vitnar jafnframt í þá kenningu athafnamannsins Kevins Standfords að helstu stjórnendur Kaupþings hafi „ráðist í verkefni sem snerist um að halda Kaupþingi í Lúxemborg lífvænlegum eftir að Kaupþing á Íslandi var fallinn“. Þeir hafi séð óveðursský á lofti.

Þórður Snær vitnar svo í skýrslu fyrrverandi starfsmanns fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg sem unnin var fyrir aðila sem tengdust kröfuhöfum Kaupþings. Þar komi fram að eftir efnahagshrunið hafi verið leitað til fjárfestingasjóðs í eigu Líbíustjórnar um möguleg kaup á Kaupþingi. Eftir annan fund hafi þær hugmyndir svo runnið út í sandinn.

Meðgjöf frá stjórnvöldum

Það hafi svo gerst í mars 2009 að Sigurður Einarsson kynnti „þann möguleika að kaupa starfsemi dótturbankans í Lúxemborg fyrir manni sem heitir Michael Wright og starfaði fyrir breska fjárfestingasjóðinn Blackfish Capital. Sá sjóður var í eigu Rowland-fjölskyldunnar og honum var stýrt af feðgunum David og Jonathan Rowland“. Sigurður og Magnús hafi síðan fundað með Wright og Rowland-feðgum í Lundúnum. Á fundinum hafi Magnús útskýrt að kaupa mætti bankann á lága upphæð, 50 milljónir evra, og að stjórnvöld í Lúxemborg myndu styðja slík kaup með því að leggja fram ígildi eigin fjár upp á 54 milljónir evra, „sem yrði síðan endurgreiðanlegt með hagnaði af rekstri“.

Kort/mbl.is

Til að gera langa sögu stutta samþykktu 97,8% kröfuhafa að selja bankastarfsemi Kaupþings í Lúxemborg til Blackfish Capital, og þar með til Rowland-fjölskyldunnar, í atkvæðagreiðslu 5. júní 2009. Virðist fjölskyldan enn vera eigandinn.

Þegar litið var inn í bankann í fyrrasumar voru fjárfestingafélögin BlackRock og Aberdeen Standard á fyrstu og annarri hæð. Fyrrnefnda félagið er einn stærsti fjárfestir í heimi en fyrir nokkrum dögum var greint frá kaupum þess í Marel.

Rowland-fjölskyldan hefur tekið þátt í íslensku viðskiptalífi. Þegar greint var frá samningi á sölu á starfsemi MP banka á Íslandi og í Litháen 11. apríl 2011 kom fram að Rowland-fjölskyldan ætti 9,6% hlut.

Kynni við Skúla Mogensen

Stærsti hluthafinn var Títan fjárfestingafélag, félag Skúla Mogensen, síðar stofnanda WOW air.

Haft var eftir Skúla í Viðskiptablaðinu tveimur dögum síðar að Rowland-fjölskyldan kæmi að bankanum vegna tengsla við hann. „Ég var viðskiptavinur Kaupþings, og síðar Banque Havilland. Þegar ég tók við bankanum kynntist ég þeim í kjölfarið,“ sagði Skúli í viðtalinu.
Þræðirnir milli Banque Havilland og Íslands liggja því víða. Þess má geta í þessu samhengi að nokkrir af helstu stjórnendum Kaupþings og makar þeirra eru enn skráð með lögheimili í Lúxemborg. Þeir áttu félög í Banque Havilland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert