Fagnaðarfundir í nýjum hjólabrettagarði

Gleðistund. Jón og Júlíus eru að hanga saman yfir helgina. …
Gleðistund. Jón og Júlíus eru að hanga saman yfir helgina. Þeir höfðu ekki hist í 4-5 ár þegar loks kom að endurfundum. mbl.is/​Hari

Jón og Júlíus ólust saman upp á Selfossi lengst af en höfðu ekki hist í fjögur eða fimm ár þar til nú um helgina, enda flutti Jón til Reykjavíkur á sínum tíma. Það voru því fagnaðarfundir. Þeir lögðu leið sína í nýja hjólabréttagarðinn á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn í hádeginu í gær.

Blaðamaður rak augun í þá þegar hann átti leið um matarmarkaðinn sem opnaði í gær við hliðina á hjólabrettagarðinum. 

„Ég er ánægður með garðinn,“ segir Jón Starkaður Laxdal Arnalds, vel að merkja sonur Eyþórs Arnalds borgarfulltrúa. Eitt er við garðinn að athuga, segir Jón, og það er að efst á rampinum er erfitt að „grind“-a, hreyfing sem felst í að ferðast um stöngina efst á rampinum á öxlum hjólabrettisins. Jón segir að þetta stafi af hönnunargalla, kanturinn sé ójafn. 

Og Jón þvertekur fyrir að hér kenni árinni illur ræðari.

Efst í rampinum er stöngin eitthvað skökk, segir Jón. Hann …
Efst í rampinum er stöngin eitthvað skökk, segir Jón. Hann getur steypt sér af stað, droppað, en ekki „grind“-að, rennt sér eftir stönginni. Að hans sögn skrifast það á hönnun rampsins. mbl.is/​Hari

Það er ekki sama, Kók og Pepsí

Júlíus Geir Sigurjónsson vinur Jóns er frá Selfossi og er kominn í helgarferð til Reykjavíkur. Hann á ekki hjólabretti og var því á hjóli. „En það er aldrei að vita nema ég kaupi mér bretti,“ segir Júlíus. Þeir voru á Miðbakkanum í nokkra klukkutíma í fyrradag, í ögn betra veðri en í gær.

Þeir voru í námunda við matarmarkaðinn að athafna sig en höfðu enn ekki gengið svo langt að fá sér að borða. Þeir þurftu þó að svala þorstanum eftir átökin á brettinu og á hjólinu og höfðu því keypt sér Pepsí skömmu áður en blaðamann bar að garði. Júlíus hefði viljað hafa það Kók. „Jón valdi þennan stað,“ segir Júlíus og bendir á tiltekinn bás á markaðnum, „og það var ekkert Pepsí þar.“ Jón vísar þessu á bug og kveðst hafa verið opinn fyrir því að skoða möguleikana á að finna Kók. „Ég spurði meira að segja um Kók en það var ekki til,“ segir hann.

Annar hjólar, hinn skeitar. Eða rennir sér um á hjólabretti …
Annar hjólar, hinn skeitar. Eða rennir sér um á hjólabretti eins og það er orðað á tærri íslensku. Félagana greindi á um stjórnsýsluna sem leiddi að þeirri ákvörðun að keypt var Pepsí, en ekki Kók. Þeir jafna sig. mbl.is/​Hari

Drengirnir, 11 og 12 ára, sjá ekki fram á annað en að venja áfram komur sínar á Miðbakkann að einhverju marki og sérstaklega ef Júlíus kemur aftur í heimsókn. Jón sér þó helst fram á að skeita á Ingó[lfstorgi] það sem eftir lifir sumars. Þar getur hann ollað niður fjórar og stefnan er að olla niður átta, það er að segja tröppur, það er að segja þessar stóru á Ingólfstorgi. Þeir eru ekki beint spenntir að byrja aftur í skólanum, enda „hræðilega leiðinlegt“.

mbl.is