Hitinn fer í allt að 20 stig

mbl.is/Hari

Spáð er norðaustangolu eða -kalda og súld eða dálítilli rigningu austanlands í dag, en skýjað verður með köflum vestan til á landinu og allvíða skúrir síðdegis. Hitinn verður á bilinu 8 til 20 stig, hlýjast í uppsveitum á Suðvesturlandi en kaldast við norður- og austurströndina.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að suðaustur af landinu sé grunn lægð sem hreyfist lítið. Fyrir vikið sé spáð svipuðu veðri á landinu á morgun, en þó heldur meiri rigningu suðaustan- og austanlands.

Mánudagsspáin gerir ráð fyrir fremur hægri norðaustlægri eða breytilegri átt á mánudag. Dálítil rigning verður framan af degi á Norðausturlandi, en skúrir á landinu síðdegis, einkum sunnan til. Hiti breytist lítið.

mbl.is