Líkur á síðdegisskúrum í dag

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að lægðarsvæði sé fyrir suðaustan og austan landið og fyrir vikið norðaustlæg átt á landinu, 3-10 metrar á sekúndu.

Rigning og súld er á Suðaustur- og Austurlandi, en bjart veður á Breiðafirði og Vestfjörðum. Í öðrum landshlutum eru líkur á síðdegisskúrum segir ennfremur. Hiti verður á bilinu 8 til 18 stig í dag, hlýjast vestantil en svalast við austurströndina og á annesjum norðanlands.

Minnkandi úrkoma verður síðan fyrir austan á morgun, en annars er gert ráð fyrir að veðrið breytist lítið.

Þriðjudagsspáin gerir ráð fyrir norðaustanátt. Skýjað verður og þurrt á norðanverðu landinu, en síðdegisskúrir á víð og dreif syðra.

mbl.is