Vildi ekki yfirgefa lögreglustöðina

mbl.is/Eggert

Meðal þeirra verkefna sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna í gærkvöldi og nótt var tilkynning um konu í annarlegu ástandi sem væri að reyna að saga tré við Norðurbrún í Reykjavík en konan mun ekki vera eigandi trésins.

Lögreglan hafði að sama skapi afskipti af konu á veitingahúsi í miðbæ Reykjavíkur sem grunuð var um þjófnað. Konan neitaði að gefa upp nafn og kennitölu og fór aukinheldur ekki að fyrirmælum lögreglu og var fyrir vikið handtekin og færð á lögreglustöð. Þar fengust upplýsingar um konuna en þá vildi konan ekki yfirgefa stöðina. Var hún þá færð út úr lögreglustöðinni af lögregluþjónum.

Þá var tilkynnt um hávaða frá gleðskap í heimahúsi í Hafnarfirði. Fjöldi fólks var við húsið og var því vísað burt. Einn í hópnum var handtekinn eftir að hann hafði staðið á vélarhlíf lögreglubifreiðar. Honum var sleppt að lokinni upplýsingatöku.

Fleiri mál komu inn á borð lögreglunnar. Einkum tengd annað hvort áfengisneyslu, fíkniefnaneyslu eða hvoru tveggja.

mbl.is