Hætti sem formaður safnaðarins eftir fjármálamisferli

Nordberg-kirkjan í Ósló.
Nordberg-kirkjan í Ósló. Ljósmynd/Wikipedia.org

Formaður Íslenska safnaðarins í Noregi sagði upp störfum í júní eftir að upp komst að hann hafði misnotað greiðslukort trúfélagsins í starfi sínu með því að taka út rúmar 30 þúsund norskar krónur án heimildar. Stjórn trúfélagsins ákvað að leggja ekki fram kæru á hendur honum.

Þetta staðfestir Anna Guðný Júlíusdóttir, lögmaður Íslenska safnaðarins í Noregi, í samtali við mbl.is.

Formaðurinn fyrrverandi hafði bæði starfað sem formaður stjórnar sem og á skrifstofu trúfélagsins og var í því starfi skráður sem „starfandi formaður“ og er enn skráður sem slíkur á vefsíðu félagsins. Visir.is greindi fyrst frá málinu.

Upp komst um brot hans þegar fjármál trúfélagsins voru skoðuð. Færslurnar voru ekki margar en voru háar í hverju tilviki. Stjórn Íslenska safnaðarins fór fram á að hann endurgreiddi fjárhæðina sem hann gerði.

Nýr formaður var kjörinn í maí og var það fyrrverandi varaformaður Jónína Margrét Arnarsdóttir sem tók við formennskunni.

Um 6.000 manns eru skráðir í trúfélagið.

mbl.is