Siðanefnd skilar áliti um Klaustursmál

Forsætisnefnd lýsti sig vanhæfa til að fjalla um málið á …
Forsætisnefnd lýsti sig vanhæfa til að fjalla um málið á sínum tíma og voru Steinunn og Haraldur þá kosin til að gegna stöðu varaforseta Alþingis tímabundið þar sem þau höfðu lítið tjáð sig um málið. Mbl.is/Hari

Siðanefnd Alþingis hefur lokið áliti sínu um Klausturmálið og sent forsætisnefnd. Fá þeir sex þingmenn sem málið varðar frest út vikuna til að bregðast við álitinu og mun forsætisnefnd líklega ljúka málinu í næstu viku. 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, staðfesti í samtali við mbl.is að forsætisnefnd hafi móttekið álit siðanefndar og ynni nú að málinu, en RÚV greindi fyrst frá.

Steinunn segir þingmennina sex nú fá tíma til að koma sinni skoðun á framfæri við nefndina. Í kjölfarið mun forsætisnefnd fara yfir þau álit sem henni kunna að berast og ljúka málinu.

Þá sagðist Steinunn hafa lesið álit siðanefndarinnar en vildi ekki tjá sig um efni þess að svo stöddu. 

Ummælin féllu undir gildissvið siðareglna

Steinunn Þóra er önnur tveggja sérstakra varaforseta Alþingis vegna Klaustursmálsins. Hún og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins óskuðu á sínum tíma eftir áliti siðanefndar um hvort gildissvið siðareglna ætti við um þær samræður sem teknar voru upp á Klaustri. 

Var það mat meirihluta ráðgefandi siðanefndar að ummæli og hegðun þingmannanna sex sem náðist á upptöku falli undir gildissvið siðareglna Alþingis. Var málinu þá vísað til siðanefndar til efnislegrar umfjöllunar og er þeirri vinnu nú lokið. 

Eins og þekkt er orðið voru þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins á Klaustri þann 20. nóvember og töluðu niðrandi um ýmsa samstarfsmenn sína á Alþingi. Voru samræðurnar teknar upp og upptökunum lekið til fjölmiðla. Síðan þá hafa Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengið í Miðflokkinn, auk þess sem Báru Halldórsdóttur var gert að eyða upptökunum í síðasta mánuði. 

mbl.is