Situr fastur á Fimmvörðuhálsi

Miðað við lýsingar á aðstæðum er möguleiki á að björgunarsveitarfólk …
Miðað við lýsingar á aðstæðum er möguleiki á að björgunarsveitarfólk þurfi að notast við sérstakan fjallabjörgunarbúnað. mbl.is/Eggert

Fimm hópar björgunarsveitarfólks eru nú á leið upp á Fimmvörðuháls til að aðstoða göngumann í sjálfheldu í Goðahrauni. Félagi mannsins tilkynnti um atvikið klukkan 18, en maðurinn hafði verið að klifra þegar hann rann niður á syllu og festi fótinn á milli steina.

Maðurinn er ekki með sjáanlega áverka en er þó kvalinn, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg vegna málsins.

Miðað við lýsingar á aðstæðum er möguleiki á að björgunarsveitarfólk þurfi að notast við sérstakan fjallabjörgunarbúnað til að ná manninum af syllunni til að tryggja öryggi hans og björgunaraðila.

Fyrstu hópar ættu að vera komnir til mannsins hvað úr hverju, en að öllum líkindum er hægt að komast alla leið að mönnunum á sexhjólum.

Um er að ræða þriðja útkall björgunarsveita á Fimmvörðuháls á fimm dögum.

mbl.is