Slökkt á einum kerskála vegna óróleika í kerjum

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Slökkt hefur verið á einum af þremur kerskálum álversins í Straumsvík. Upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi segir að ákvörðunin hafi verið erfið en að hún hafi verið tekin til að tryggja öryggi starfsmanna og ná um leið betri tökum á rekstrinum.

Alls eru 160 ker í hverjum kerskála í álverinu. 

Slökkt var á kerskála þrjú í tveimur skrefum, fyrst í gær og svo aftur í nótt. „Ákvörðunin var tekin til að bregðast við mjög miklum óróleika sem hefur verið í rekstrinum að undanförnu,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi. „Hann er rakinn til þess að við höfum verið að fá óvenjulegt súrál frá því sem við eigum að venjast. Það er tengt erfiðum aðstæðum á súrálsmörkuðum í  heiminum.“

Hann bætir við: „Þetta var nokkuð erfið ákvörðun en hún var fyrst og fremst tekin til þess að tryggja öryggi okkar starfsfólks og það er í forgangi.“

Bjarni Már segir að álverið hafi verið að fá súrál frá nýjum birgjum. Stórri súrálsverksmiðju í Brasilíu var lokað og breyttist framboðið á súráli í heiminum í framhaldinu. „Okkar rekstur er ekkert vanur því að fá þetta efni,“ segir hann og bætir við að óróleiki skapist í kerjunum og verið sé að bregðast við honum.

Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi.
Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður segir hann of snemmt að segja til um fjárhagslegt tjón vegna ákvörðunarinnar en augljóslega sé ekki verið að framleiða í skálanum sem nú er úti. Ekki er ljóst hvenær hann verður aftur tekinn í notkun. 

Framleiðslugeta álversins í Straumsvík er um 212 þúsund tonn á ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert