Þjófurinn fannst í fangageymslu lögreglu

65 mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt og fengu þrír að gista í fangageymslu.

Lögregla var kölluð að heimahúsi í Kópavoginum um níuleytið í gærkvöldi eftir að tilkynnt var um innbrot og þjófnað. Farið hafði verið inn um glugga á húsinu og m.a. stolið bíllykli og bílnum ekið á brott. Talið er að innbrotið hafi átt sér stað tveimur sólahringum áður. 

Við rannsókn málsins kom svo í ljós að bílþjófurinn var þegar í haldi lögreglu vegna annars máls og telst málið er því upplýst og bifreiðin fundin.

Það var á níunda tímanum í gærkvöldið sem lögregla var kölluð til vegna ofurölvi manns sem var til ama við veitingahús í Hafnarfirðinum. Lögregla hafði áður vísað manninum frá veitingahúsinu, en hann lét ekki segjast og sneri þangað strax aftur. Var því farið með hann á lögreglustöðina og fékk hann að sofa úr sér í fangageymslu lögreglu.

Lögregla handtók svo mann í hverfi 105 um tíuleytið í gærkvöldi sem grunaður er um sölu og dreifingu fíkniefna. Var hann vistaður í fangageymslu í nótt vegna rannsóknar málsins.

Á tólfta tímanum handtók lögregla svo konu í hverfi 108 sem var í annarlegu ástandi. Fær hún að sofa úr sér í fangageymslu lögreglu.

mbl.is