„Algjört bull og ábyrgðarleysi“

Í Strandasýslu er að finna stærstu ósnortu víðernin á landinu.
Í Strandasýslu er að finna stærstu ósnortu víðernin á landinu. mbl.is/Golli

Talsmaður hluta landeiganda í Seljanesi í Árneshreppi segist gáttaður á þeirri málsmeðferð sem fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur fengið. Segir hann allt tal um afturkræfni vera markleysu og að verið sé að ákveða næstu skref til að koma í veg fyrir framkvæmdirnar sem hófust í gær. 

„Það er fjöldinn allur af skrefum í undirbúningi. Við ætlum að láta reyna á lagabókstafinn og það er í vinnslu, til dæmis hvort það sé heimild fyrir því að fara inn á einkaland og vinna á því. Við sem eigum þetta land mótmælum því náttúrulega af mörgum ástæðum. Það hefur ekki verið leitað samráðs okkar eða álits á þessum framkvæmdum þegar þeir munu þurfa að fara inn á okkar eign,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson. 

Í samtali við mbl.is í gær sagði Hrafn Jökulsson, sem einnig er mótfallin virkjun Hvalár, að unnið sé að því að koma í veg fyrir framkvæmdirnar með öllum tiltækum ráðum og að aðgerða sé að vænta í vikunni. „Við ætl­um ekki að mót­mæla, við ætl­um að koma í veg fyr­ir þetta,“ eins og Hrafn orðaði það. 

Fyr­ir­huguð Hvalár­virkj­un hef­ur verið gríðarlega um­deild í Árnes­hreppi og víðar. Fyr­ir liggja sjö kær­ur hjá Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála vegna fram­kvæmd­ar­leyf­is sem hrepps­nefnd Árnes­hrepps veitti Vest­ur­Verki í byrj­un sum­ars. 

Hafa bæði land­eig­end­ur á svæðinu sem og ýmis nátt­úru­vernd­ar­sam­tök kært fram­kvæmd­ar­leyfið og meðal ann­ars borið fyr­ir sig meinta laga­lega van­kanta á meðferð máls­ins. 

„Stendur ekki steinn yfir steini“

Guðmundur segir landeigendur fyrst og fremst vilja láta reyna á þau lagalegu úrræði sem standi til boða.

„Svo eru álitamál líka um eignarhald á veginum og rétt Vegagerðarinnar til að afsala sér framkvæmdarétti á honum,“ segir Guðmundur en hluti landeigenda Seljaness sendu í dag Vegagerðinni bréf þar sem er mótmælt þeirri stjórnvaldsákvörðun að framselja veginn til einkahlutafélags og breyta honum í leiðinni úr landsvegi í virkjunarveg. Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi eru einmitt fyrsti hluti framkvæmdanna sem hófust í gær. 

Guðmundur Hrafn Arngrímsson.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það stendur ekki steinn yfir steini í málsmeðferðinni sjálfri, alveg frá upphafi og núna er þetta allt að koma í ljós. Í fyrsta lagi er hreppurinn alveg óskaplega fáliðaður, það eru ellefu manns sem hafa þarna heilsársbúsetu og þessir fimm manns sem eru í hreppsnefnd virðast ekki hafa burði til að sinna þessari stjórnsýslu,“ segir Guðmundur. 

„Það eru ofboðslega margir vankantar á framkvæmd skipulagsmála og leyfisveitinga. Þetta framkvæmdaleyfi sem VesturVerk fékk var til dæmis ekki auglýst, það var engin eftirlitsmaður á staðnum, engin hönnunargögn, ekki verið framkvæmd fornleifarannsókn fyrr en núna. Það er bara ekki búið að framfylgja þessum lögbundnu skrefum sem hreppurinn þarf að taka í til þess að tryggja það að svona framkvæmdir geti farið fram samkvæmt lögum. Það hefur ekki verið gert og við náttúrulega leitum bara til þessara stofnana sem fara með skipulagsmál í landinu og að hreppnum verði gert að framfylgja þessum reglum til að byrja með.“

„Náttúrulega alveg fáránlegt“

Guðmundur segist undrast það að framkvæmdarleyfi fyrir virkjun Hvalár standi enn eftir afar neikvæðar álitsgerðir Skipulagsstofnunar og Landverndar. 

„Þegar þessi virkjanaframkvæmd fer í rammaáætlun þá fær hún mjög neikvæða umsögn. Það eru fjórir flokkar sem svona framkvæmdir eru metnar út frá. Í tveimur flokkum fékk virkjunarkosturinn algjöra falleinkunn og hinum tveimur var sleppt vegna þess að það vantaði gögn.“

Samt er þessi virkjunarkostur tekin með í rammaáætlun, í góðri trú nefndarmanna um að þetta væri svo fáránlegur kostur og illa metinn að það yrði ekki hægt að fara með hann áfram því hann myndi kolfalla í umhverfismati, sem hann svo gerir. Í sex af sjö þáttum sem metnir eru til umhverfismats fær virkjunarkosturinn neikvæða umsögn,“ segir Guðmundur. „Það er náttúrulega alveg fáránlegt að það skuli vera að halda áfram með þetta í trássi við álit Skipulagsstofnunar.“

Segir ótrúlegt að engin hafi gripið inn í

Þá segir Guðmundur hverja handvömmina á fætur annarri hafa komið í ljós í aðdraganda framkvæmdarinnar. 

„Það kemur í ljós þegar búið er að veita þessu brautargengi í deiliskipulagi, að hreppurinn á ekki tilkall til um 30% af því landi sem þeir eru búnir að ákveða að ráðstafa. Þó að allar forsendur sem hafa verið fyrir þessari virkjun hafi allan tímann verið mjög hæpnar, eru þær allar löngu brostnar. Samt sem áður standa þessi leyfi því skipulagsvaldið er svo sterkt, alveg sama hvað sveitarfélagið er stórt.“

Hvalá Niðri við ós í Árneshreppi.
Hvalá Niðri við ós í Árneshreppi. mbl.is/Sigurður Bogi

Þrátt fyrir öll þessi neikvæðu álit og að handvömmin sé slík að verið sé að ráðstafa landi sem menn hafa engan rétt til að ráðstafa, halda þeir þessu leyfi til streitu. Það er stóralvarlegt að sveitarfélag skuli misnota vald sitt svona mikið og með svona lítið umboð. Hreppsnefndin í Árneshreppi er með svo lítið umboð, svo fá atkvæði á bakvið sig, og tekur samt svona stórar og hæpnar ákvarðanir í trássi við álit stjórnsýslustofnanna.“

Það er náttúrulega alveg ótrúlegt að það sé ekkert stjórnvald að grípa inn í þetta. Eiginlega alveg galið.“

Telur hreppsnefnd eiga við ofurefli að etja

Aðspurður hvers vegna Guðmundur telji að hreppsnefnd Árneshrepps dragi ekki framkvæmdarleyfið til baka í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið, segir hann hreppinn einfaldlega eiga við ofurefli að etja. 

„Ég hef náttúrulega mínar skoðanir á því. Hreppurinn hefur litla burði til að standast svona atlögu frá risastóru fyrirtæki sem hefur gríðarlega fjársterka erlenda aðila á bakvið sig. VesturVerk er náttúrulega bara skúffufyrirtæki og það er HS Orka sem stendur að þessum framkvæmdum.“

Þeir leggjast þarna á mjög máttvana sveitarfélag og telja þeim trú um að þessari virkjun fylgi gull og grænir skógar. Það virðist sem svo að þeir sem hafa setið í hreppsnefnd hafi annað hvort trúað málflutningi HS Orku eða bitið á þessa hugmynd og skella bara skollaeyrum við öllum öðrum kostum sem eru í boði.“

Þarna er bara máttvana stjórnsýsla sem er að eiga við gríðarlega stóra og öfluga, erlenda fjárfesta, sem bara valta yfir þau og valta yfir samfélagið þarna. Þetta er bara stórundarlegt mál að öllu leyti. Það er eins og hreppurinn sé bara orðinn armur VesturVerks.“

Segir allt tal um afturkræfni vera bull 

Þá tekur Guðmundur undir með Hrafni Jökulssyni og fleirum sem hafa bent á það að ósnortin víðerni Árneshrepps sé afar viðkvæm og verðmæt og megi ekki við því að framkvæmdir hefjist á svæðinu án þess að náttúran bíði skaða af. 

„Samfélagið og vistkerfið þar sem þessar framkvæmdir eiga að fara fram, fer undir algjöra eðlisbreytingu. Við erum að tala um tugþúsundfalt meira umfang en samanlögð öll sú athafnarsemi sem farið hefur þarna fram síðustu ellefuhundruð ár. Allt tal um afturkræfni og óverulegt rask er bara algjört bull og ábyrgðarleysi.

„Það er bara deginum ljósara að ekkert sem er gert þarna er afturkræft. Það var reynd vegagerð til dæmis í Seljanesinu fyrir 50 árum og það er bara eins og það hafi verið gert í gær. Allt tal um afturkræfni er bara bull,“ segir Guðmundur. „Það er stórundarlegt að það séu orð og munnlegar lýsingar virkjunaraðila, vegna þess að það er svo lítið til af gögnum, sem verið sé að hlusta á.“

„Það er ótrúlegt að stofnanir sem veita þessu verkefni brautargengi skulu taka orð virkjunaraðila fyrir því eingöngu, án þess að fá hjá þeim tölusettar eða nákvæmari lýsingar á því hvað þeir meina með afturkræfni. Þegar menn eru búnir að moka upp tugþúsundum rúmmetra efni úr óröskuðu landi og segja svo að þetta sé óverulegt og afturkræft, þetta á náttúrulega bara ekki að eiga heima í sömu setningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert