Ekki erfið ákvörðun að slökkva á skálanum

Rannveig ásamt starfsmönnum álversins þegar haldið var upp á 50 …
Rannveig ásamt starfsmönnum álversins þegar haldið var upp á 50 ára afmæli fyrirtækisins 1. júlí síðastliðinn. mbl.is/Eggert

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segir að ljósboginn sem myndaðist í álverinu í Straumsvík hafi komið fram inni í lokuðu keri.

„Það er mikilvægt að menn átti sig á því. Þetta er annað heldur en ef ljósbogi fer frá keri og eitthvert annað,“ segir Rannveig í samtali við mbl.is.

Enginn starfsmaður var nálægt þegar atvikið átti sér stað.

Þegar útlit var fyrir að önnur ker voru að þróast í að verða „svona veik“ eins og umrætt ker og að ljósbogi gæti einnig myndast í þeim var ákveðið að slökkva á kerskála þrjú.

„Við höfum ekki lent í þessu áður. Við sáum að þetta gæti verið í uppsiglingu þannig að við tókum enga áhættu og tókum skálann út. Við tökum ekki áhættu með starfsfólkið. Þess vegna var þetta ekki erfið ákvörðun,“ segir Rannveig og bætir við að það hafi verið allt öðruvísi þegar ljósbogi myndaðist síðast í verksmiðjunni árið 2001 og við allt aðrar aðstæður.

Spurð hvort breyta þurfi vinnureglum út af því sem gerðist segir hún að yfirfara þurfi alla ferla á nýjan leik. Aðstæðurnar hafi verið „gríðarlega óvenjulegar“ og að súrálið sé öðruvísi en það sem hafi verið notað síðustu fimmtíu árin.

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Átján ker til viðbótar úr notkun

Átján ker í kerskálum eitt og tvö hafa einnig verið tekin úr notkun en vanalega eru þrjú ekki í notkun að sögn Rannveigar. Alls eru 160 ker í hverjum kerskála í álverinu. Munurinn á skála þrjú og hinum tveimur er sá að sá fyrrnefndi er á hærri straum og er hann því viðkvæmari en hinir. „Þeir eru miklu rólegri og það er öðruvísi staða þar,“ segir hún og undirstrikar að engin hætta sé þar á ferðinni.

„Ef við sjáum einhvern búnað fara á stað sem okkur líst ekki á þá er hann tekinn úr sambandi. Við sjáum enga hættu í uppsiglingu í hinum skálunum. Við höfum meiri mannskap og búnað til þess að sinna því ef það kemur upp.“

Álstangir hjá Rio Tinto í Straumsvík.
Álstangir hjá Rio Tinto í Straumsvík. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Halda hinum kerskálunum góðum

Núna stendur yfir vinna við að halda kerskálum eitt og tvö góðum. Rannveig bendir á að skip með súrál frá aðila sem álverið er vant að fá súrál frá lagðist að bryggju í gærkvöldi og vonast hún til að skammturinn verði betri en sá sem þau hafa verið að fá það sem af er árinu.

„Við höldum að þetta sé að vænkast. Þetta stafar af því að það er óvanaleg staða á súrálsmörkuðum. Það hefur verið erfitt að fá súrál í heiminum og þess vegna höfum við verið að kaupa súrál frá aðilum sem við höfum ekki verið vön að fá súrál frá. Það hefur leitt til þessa óróleika í kerunum,“ segir hún. „Þetta eru viðkvæm ker og ÍSAL er viðkvæm verksmiðja.“

Áætlun er uppi um súrálsafhendingar út þetta ár og miðast þær við súrál frá aðilum í Brasilíu sem þau hafa verið vön að skipta við og góð reynsla er af. „Þessari súrálskreppu er að linna. Það er allt að horfa til betra vegar með það.“

Úr álverinu í Straumsvík.
Úr álverinu í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Tók tíu vikur síðast

Spurð út í tjónið vegna þeirra stöðu sem núna er uppi segir hún engar upplýsingar liggja fyrir um það. Alltaf séu stórar tölur í stóriðjunni og stærð tjónsins ráðist af því hversu mikið þurfi að vinna við að koma hverju keri í gang og hversu langan tíma það taki. Rannveig segir ljóst að endurnýja þurfi sum kerin, sem sé reyndar gert á nokkurra ára fresti.

Varðandi tímann sem tekur að koma öllu af stað aftur segist hún ekki vita það en bendir hún á að það hafi tekið tíu vikur árið 2006 þegar kerskála þrjú var lokað vegna rafmangsleysis. „Það eru sum álver sem gera þetta af ýmsum ástæðum. Menn eru búnir að þróa alls konar aðferðir við að gangsetja skála,“ segir hún og nefnir að sum slökkva á kerskálum á hverju ári vegna rafmangsskorts.

Hún segir að kallað hafi verið á auka mannskap vegna stöðunnar sem er uppi, auk þess sem fólk í sumarfríum hafi boðið fram aðstoð sína. Segist hún þakklát fyrir það. „Núna einbeitum við okkur að skálum eitt og tvö og reynum að fara okkur að engu óðslega.“

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi. mbl.is/Ófeigur
mbl.is