Engin E. coli tilfelli annan daginn í röð

Engin breyting hefur orðið á líðan barnanna sem eru í …
Engin breyting hefur orðið á líðan barnanna sem eru í eftirliti hjá Barnaspítala hringsins. mbl.is/Eggert

Engin E. coli tilfelli greindust í dag, annan daginn í röð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis. Saursýni fjögurra einstaklinga voru rannsökuð í dag en enginn þeirra reyndist með sýkinguna.

Engin breyting hefur orðið líðan barnanna sem fylgst er með á Barnaspítala Hringsins.

Frekari rannsóknir standa enn yfir á hugsanlegum smitleiðum í Efstadal og er niðurstaðna að vænta á næstu dögum.

Telur að faraldurinn sé á undanhaldi

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir telur að faraldurinn sé á undanhaldi en það sé hins vegar ekki hægt að slá því föstu þar sem aðsóknin hefur minnkað í Efstadal II og það þurfi að bíða aðeins lengur til að sjá hvort að aðgerðirnar sem farið var í haldi bakteríunni í skefjum.

„Það er virkilega ánægjulegt að það sé ekki verið að greina ný tilfelli. En við þurfum að halda áfram að fylgjast vel með og sjá þegar starfsemin þarna upp frá [Efstadal II] fer að komast í venjulegt horf og vera vissir um að það sé ekkert að gerast,“ segir Þórólfur og bætir við: 

„Vonum að þetta sé orðið gott bara.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Mynd/mbl.is
mbl.is
Loka