Fyrst kvenna til að synda Eyjasund

Sigrún Þuríður Geirsdóttir kemur hér á land á Landeyjasandi eftir …
Sigrún Þuríður Geirsdóttir kemur hér á land á Landeyjasandi eftir sundið frá Eyjum. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Þuríður Geirsdóttir varð í nótt fyrsta konan til að synda svokallað Eyjasund, þ.e. leiðina frá Vestmannaeyjum og yfir á Landeyjasand. Sigrún hóf sundið frá Eiðinu í Heimaey kl. 01:10 í nótt og tók sundið hana fjóra klukkutíma og 31 mínútu, en leiðin sem hún synti var rúmir 11 km, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Fyrstu tvo klukkutímana fylgdu höfrungar Sigrúnu eftir, en mávar, fýlar og lundar sýndu einnig sundinu mikinn áhuga. Þess má geta að Sigrún er frænka eins frægasta sjósundkappa Íslands, Eyjólfs Jónssonar, sem synti Eyjasundið fyrstur manna í júlí árið 1959 eða fyrir 60 árum. 

„Mér leið mjög vel í byrjun sundsins en sjávarföllin, að sögn skipstjórans, voru einkennileg því í austurfallinu rak mig til vesturs en ekki austurs. Mér varð óglatt og kastaði aðeins upp en annars leið mér ágætlega. Hausinn á mér var góður allan tímann og reyndi ég að hugsa alltaf jákvætt, ég söng í huganum og var alltaf að hugsa um hversu langt ég var komin miðað við önnur sund sem ég hef synt,“ er haft eftir Sigrúnu í tilkynningunni.

Sigrún er fimmti Íslendingurinn til að synda Eyjasundið. Fylgdarfólk hennar á sundinu voru Haraldur Geir Hlöðversson úr Vestmannaeyjum, Jóhannes Jónsson eiginmaður Sigrúnar og Harpa Hrund Berndsen. Björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli tók síðan á móti Sigrúnu þegar hún kom í land.

Sigrún er vön því að synda langar leiðir í sjó, en árið 2015 var hún fyrsta íslenska konan til að synda yfir Ermarsundið og synti hún þá 34 km leið frá Dover á Englandi til Cap Gris-Nez í Frakklandi á 22 klukkustundum.

Í september næstkomandi mun Sigrún þreyta sundið á ný yfir Ermarsundið. Í þetta skiptið mun hún synda boðsund með kvennahópnum Marglyttunum sem vilja með sundinu vekja athygli á hnignandi lífríki sjávar vegna mengunar og safna um leið áheitum fyrir umhverfissamtökin Bláa herinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert