Gott að kaupa súrál frá sama birgja

Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði.
Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Engin vandamál hafa verið með súrálið sem notað er í álveri Alcoa Fjarðaráls á Reyðarfirði en einn af þremur kerskálum álversins í Straumsvík hefur verið stöðvaður vegna óróleika sem skapaðist í kerunum sökum súrálsins sem þar er notað.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaráls, segir að fyrirtækið hafi notað sama súrálið frá Ástralíu í mörg ár og að það sé mjög stöðugt.

Upplýsingafulltrúi álversins í Straumsvík greindi frá því að „óvenjulegt súrál“ frá nýjum birgjum hafi valdið óróleikanum í kerunum.

„Súrálið er mismunandi. Ef þú þarft að skipta mikið um birgja getur grófleikinn og fleira verið mismunandi. Þess vegna er gott að geta keypt frá sama birgjanum eins og við höfum verið að gera,“ segir Dagmar Ýr.

Tveir kerskálar eru í Alcoa Fjarðaráli með samtals 336 kerum. Framleiðslan á ári nemur um 350 þúsund tonnum. Til samanburðar er fram­leiðslu­geta ál­vers­ins í Straums­vík um 212 þúsund tonn á ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert