Hættulegur farmur fær meira pláss

Frá heræfingu bandarískra landgönguliða á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar í október.
Frá heræfingu bandarískra landgönguliða á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar í október. mbl.is/Árni Sæberg

Öryggissvæði fyrir hættulegan farm, svokallaðan „hot cargo“, á Keflavíkurflugvelli verður stækkað í framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á flugvellinum á vegum Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er svæðið einkum ætlað herflugvélum, til dæmis ef flytja þarf vopn, en gæti þó nýst fyrir borgaraleg loftför þurfi af einhverjum ástæðum að einangra þau, svo sem ef upp kemur bráðsmitandi veirusýking um borð eða annars konar hættuástand.

Keflavíkurflugvöllur er óvenjulegur að því leytinu til að þar fer bæði fram borgaralegt flug og flug vopnaðra herflugvéla, og því nauðsynlegt að halda slíku aðgreindu. Stækkun svæðisins er í takt við aukin umsvif Bandaríkjahers á svæðinu undanfarin ár, einkum þegar kemur að kafbátaeftirliti, að því er fram kemur í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Svæðið sem áður hefur nýst undir þessa starfsemi er flugskýli 831, austanmegin á vellinum, en það er æ meira undirlagt almennu millilandaflugi og er það hluti ástæðunnar fyrir stækkun svæðisins.

Ekki er þó útlit fyrir neina sérstaka breytingu á vopnaflutningum um flugvöllinn eftir stækkun, og í samtali við mbl.is útilokar upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins að til greina komi að flytja kjarnorkuvopn um íslenska lofthelgi. Samrýmist það enda ekki íslenskri þjóðaröryggisstefnu.

mbl.is