Vinnueftirlitið fylgist með framvindunni

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Eggert

Starfsmaður Vinnueftirlitsins sem hefur eftirlit með álverinu í Straumsvík hafði samband við álverið í gær eftir að svokallaður ljósbogi myndaðist þar í fyrradag.

„Við erum að fá upplýsingar frá þeim um hver staðan er. Við erum að ganga úr skugga um að þau séu að fylgja öllum ferlum hjá sér þannig að þau séu að tryggja öryggi starfsmanna,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.

Hún bætir við að fulltrúar álversins hafi brugðist hratt og örugglega við. „Við erum að fylgjast með framvindunni og eigum í góðum samskiptum við þau. Þetta er hættulegur iðnaður þannig að þau eru með miklar varúðarráðstafanir.“

Aðspurð segir Hanna Sigríður að Vinnueftirlitið hafi ekki áhyggjur af stöðunni í álverinu í Straumsvík að svo stöddu.

Ákveðið var að slökkva á kerskála þrjú í álverinu til að tryggja öryggi starfsmanna. Sama kerskála var einnig lokað í júní árið 2006 vegna straumleysis í skálanum. Til stóð að bjarga að minnsta kosti 40 af kerunum 160 en það tókst ekki. Endurgangsetning keranna hófst á nýjan leik fjórum vikum síðar.

Álstangir hjá Rio Tinto í Straumsvík.
Álstangir hjá Rio Tinto í Straumsvík. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Fram kem­ur á Vís­inda­vefn­um að ljós­bogi mynd­ist þegar raf­straum­ur fer um gas. Við þær aðstæður hitn­ar gasið mikið. Í ljós­boga verði varma­mynd­un vegna raf­straums til þess að viðhalda rafgasi og er al­gengt hita­stig á milli 20.000 og 30.000 °C.

„Þar sem hit­inn í rafgasinu hleyp­ur á tug­um þúsunda gráða verður gíf­ur­leg geisl­un frá ljós­bog­an­um og allt í næsta ná­grenni sviðnar á auga­bragði áður en straum­ur­inn rofn­ar aft­ur,“ seg­ir á Vís­inda­vefn­um.

Ljós­bogi hef­ur áður mynd­ast í ál­ver­inu. Árið 2001 slösuðust tveir starfs­menn þegar ljós­bogi myndaðist við gang­setn­ingu raf­grein­ing­ar­kers og voru þeir flutt­ir á sjúkra­hús með al­var­lega bruna­á­verka

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert