Víst kjúklingur í kjúklingaálegginu

Hinar villandi kjúklingaáleggsumbúðir.
Hinar villandi kjúklingaáleggsumbúðir. Ljósmynd/Facebook

Stefáni Pálssyni sagnfræðingi brá í brún þegar hann hugðist gæða sér á kjúklingaáleggi frá Kjarnafæði í morgun. Á plastumbúðunum rak hann augun í innihaldslýsinguna, en þar kom fram að aðalinnihaldsefnið væri ekki kjúklingur, eins og einhver kynni að gera ráð fyrir, heldur grísakjöt og stæði það undir 80 prósentum af massa áleggsins. Stefán sagði fésbókarvinum sínum frá þessum óförum í morgun.

Ekki leið þó á löngu þar til starfsmenn Kjarnafæðis voru mættir til að útskýra hvernig væri í pottinn búið. Um prentvillu væri að ræða, því sannarlega væri ekkert grísakjöt í kjúklingaálegginu, heldur einmitt kjúklingur.

Unnið sé að því að fjarlægja rangmerktu pakkningarnar úr verslunum.

Aðspurður segist Stefán hafa trúað því við fyrsta lestur að uppistaðan í álegginu væri svínakjöt. „Ég fór að hugsa hvort þetta væru nú ekki aðallega svínabændur þarna hjá Kjarnafæði, svo ég gat alveg fallist á þetta,“ sagði Stefán. Sonur hans hafi fyrir einhverju síðan tekið upp á því að hætta að borða svínakjöt, sem þýðir að foreldrarnir eru dæmdir til að lúslesa innihaldslýsingar allra matvæla sem þeir hyggjast leggja honum til munns.

„Þá kemst maður að því að ótrúlegasti matur, sérstaklega unnar kjötvörur, inniheldur svínakjöt þótt það sé ekki endilega augljóst,“ segir Stefán. Ljóst er þó að seinasta vígið er ekki fallið; kjúklingaálegg er enn að megninu til úr kjúklingi.

Aðspurður segist Stefán hafa trúað því við fyrsta lestur að …
Aðspurður segist Stefán hafa trúað því við fyrsta lestur að uppistaðan í álegginu væri svínakjöt. mbl/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert