Ákveða fyrir helgi hvort FME verði stefnt

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir félagið líklega taka ákvörðun …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir félagið líklega taka ákvörðun fyrir helgi um hvort stefna skuli FME. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn VR mun fyrir helgi taka ákvörðun um hvort Fjármálaeftirlitinu (FME) verði stefnt, takist að halda stjórnarfund. Mun stefnan vera vegna álitsgjafar FME þar sem afturköllun umboðs þeirra stjórnarmanna VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) er ekki talin gild.

Þetta staðfestir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is.

„Við erum að fara yfir málið með lögmönnum félagsins og ég að von á því að ef við förum í að stefna FME þá verður það gert líklega fyrir helgi. Við erum að skoða þetta, það er erfitt að boða til fundar akkúrat núna. Það eru margir í fríum,“ segir Ragnar Þór.

Verja löglega ákvörðun

Fulltrúaráð VR ákvað 20. júní að afturkalla umboð stjórnarmanna í kjölfar þess að stjórn LV ákvað að hækka vexti á ákveðnum verðtryggðum lánum, úr 2,06% í 2,26%.

FME gaf hins vegar út álit til stjórnar LV í byrjun júlí. Þar kemur fram að stofnunin lítur svo á að fulltrúar VR í stjórn sjóðsins séu enn með umboð þar sem ákvörðun um afturköllun var tekin af fulltrúaráði VR en ekki stjórn félagsins eins og samþykktir sjóðsins gera ráð fyrir.

Ragnar Þór hefur hins vegar lýst því að samþykktir VR heimili stjórn að framselja ákvörðunarvald til stofnanna félagsins eins og hefur verið gert í þessu tilviki. „Ef við myndum stefna FME þá væri það til þess að verja ákvörðun sem við teljum fullkomlega löglega,“ segir hann.

Formaðurinn segir hins vegar ekki verða tekna ákvörðun um hvernig skal skipa nýja stjórnarmenn í LV fyrr en eftir mánaðarmót. „Það er að segja, hvort við kjósum stjórn áfram til bráðabirgða eða hvort við förum í valferli sem stóð alltaf til að fara í núna í haust. Þá myndum við auglýsa etir áhugasömum um að sinna þessu stjórnarstarfi fyrir okkur.“

„Þessi fráfarandi stjórn sem við settum af, hún var alltaf skipuð fram að hausti þegar nýjar skipulagsreglur taka gildi. Þetta er farið að skarast, þannig að ég get ekki nákvæmlega sagt hvernig þetta verður,“ útskýrir Ragnar Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert