Rekstrarhalli Landspítalans umtalsverður

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdarstjóri flæðisviðs Landspítalans, staðfestir að um er …
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdarstjóri flæðisviðs Landspítalans, staðfestir að um er að ræða umtalsverðan hallarekstur Landspítala, en getur ekkert upplýst um umfangið. Ljósmynd/Aðsend

Töluverður hallarekstur er á Landspítalanum á yfirstandandi ári samkvæmt heimildum mbl.is. Umfang hallans fæst þó ekki staðfest, umfram það að hann sé „umtalsverður“ og að unnið sé að leiðum til þess að mæta hallanum í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.

Hallarekstur spítalans var 1,4 milljarðar króna á síðasta ári eða um 2% miðað við tekjur, sem voru 70,8 milljarðar árið 2018

„Hallinn er umtalverður og eitthvað umfram spár, en við erum að vinna að tillögum og útfærslu þeirra útaf hallarekstri með heilbrigðisráðuneytinu,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs og staðgengill forstjóra Landspítalans, í samtali við mbl.is. Hún kveðst ekki geta tjáð sig frekar að svo stöddu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist í samtali við mbl.is ekki geta upplýst um umfang hallarekstur spítalans, en segist vita til þess að samskipti séu milli ráðuneytisins og spítalans. Þá vísar hún til almennra vinnureglna ráðuneytisins.

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alltaf þannig að gaumgæfilega er fylgst með rekstri stofnanna og tiltekið ferli sem þar er viðhaft í samskiptum við ráðuneytið, þannig að ráðuneytið er upplýst með mjög reglubundnum hætti um hver staðan er. Þegar stefnir í halla eða þá að hann er sýnilegur þýðir að það er enn betur farið í saumana á málunum, bæði óskað skýringa og það að viðkomandi stofnun hafi einhverjar leiðir til að ná rekstrinum aftur á kjöl,“ segir Svandís.

Þegar haft var samband við heilbrigðisráðuneytið fengust ekki frekari upplýsingar um samskipti ráðuneytisins og Landspítala vegna umtalsverðs hallareksturs spítalans vegna sumarleyfa starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert