Gætu notað Herjólf III og IV um verslunarmannahelgina

Nýi Herjólfur eða Herjólfur IV er glæsilegt skip.
Nýi Herjólfur eða Herjólfur IV er glæsilegt skip. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdarstjóri Herjólfs ohf., útilokar ekki að bæði nýi og gamli Herjólfur muni sigla til og frá Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina nú þegar ljóst er orðið að sá nýi mun hefja siglingar í kvöld. „Það er ótímabært að svara því núna hvort af því verður,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Upphaflega átti nýi Herjólfur eða Herjólfur IV að hefja áætlunarsiglingar 18. júlí en ekkert varð úr því vegna lagfæringa sem ráðast þurfti í á viðlegukanti (e. fender) á höfninni í Vestmannaeyjum. Þá kom einnig í ljós galli í öðrum jafnvægisugga skipsins sem þarf að gera við þegar skipið fer í slipp í september.

Engin ákvörðun verið tekin ennþá

Mikil óvissa hefur því ríkt um það hvenær nýja skipið gæti hafið siglingar, allt þangað til í gær þegar fréttatilkynning barst frá Vegagerðinni. Þar kom fram að viðlegukanturinn hefur verið lagfærður til bráðabirgða og nýi Herjólfur mun hefja áætlunarsiglingar frá Vestmannaeyjum klukkan 19:30 í kvöld.

Það liggur því beint við að spyrja Guðbjart hvort að það þýði að bæði gamli Herjólfur (Herjólfur III) og nýi Herjólfur (Herjólfur IV) myndu sjá um að flytja óþreyjufulla þjóðhátíðargesti til og frá Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.

„Við höfum ekki útilokað neitt í þeim efnum en það hefur engin ákvörðun verið tekin. Við erum nýlega komnir á þá niðurstöðu að hefja rekstur á þeim nýja og ætlum að láta það rúlla áður en við tökum frekari ákvarðanir,“ svarar Guðbjartur.

Hver hindrunin á fætur annarri

Eins og fyrr segir hafa ýmsar hindranir staðið í vegi fyrir því að nýi Herjólfur hefji siglingar. Fyrir það fyrsta urðu tafir á afhendingu skipsins vegna breytinga á búnaði þess og vegna seinagangs hjá skipasmíðastöðinni í Póllandi. Breyta þurfti svo ökubrú bæði í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn þar sem nýja skipið er lægra en hið gamla og ökubrúin reyndist því of brött.

Einnig þurfti að laga ekju- og landgöngubrýr svo að þær hentuðu bæði Herjólfi III og Herjólfi IV sem og viðlegukantinn í Vestmannaeyjahöfn. Fyrir viku síðan kom svo í ljós að galli er í öðrum jafnvægisugga nýja skipsins og að það þarf að fara í slipp.

En Guðbjartur segir að þar sem búið sé að lagfæra viðlegukantinn í Vestmannaeyjahöfn til bráðabirgða sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja siglingar. „Það er verið að lagfæra viðlegukantinn hér í Vestmannaeyjum og gera hér bráðabirgðalagfæringar þannig við getum notað skipið með öruggum hætti.“

Útskýrt á mannamáli en ekki sjómannamáli

Viðlegukantur (e. fender), ekju- og landgöngubrýr, fríholt og jafnvægisuggi eru orð sem geta auðveldlega ruglað landkrabba í ríminu. Guðbjartur er því beðinn, af blaðamanni úr borginni sem aldrei hefur migið í saltan sjó, að útskýra á mannamáli en ekki sjómannamáli hvað vandamálið hefði nákvæmlega verið. Það stendur ekki á svörum:

„Málið er það að það er utanáliggjandi járnstykki eftir allri síðunni á skipinu sem kallað er „fender“ og þar er burðurinn eða styrkurinn í skipinu. Þessi fender er örlítið hærri en fenderinn á gamla skipinu og sömuleiðis hærri en viðlegukanturinn (e. fender) og fríholtin í Vestmannaeyjahöfn.“

„Fríholtin eru þessir belgir eða dekk sem verja skipin gegn stál- eða steyptri bryggjunni. Þannig að fríholtin á bryggjunni og fenderinn (utanáliggjandi járnstykki) á skipinu eiga að mætast og leggjast hvort að öðru,“ útskýrir Guðbjartur varlega fyrir blaðamanni og heldur áfram:

„Gúmmídekkin sem voru á bryggjunni í Vestmannaeyjum voru, við ákveðna sjávarstöðu, lægri heldur en fenderinn á skipinu. Jafnframt á flóði þá gekk fenderinn upp fyrir bryggjuna þannig að skipið var í raun að banka utan í bryggjuna og þessi fender var ekki að verja skipið fyrir þessum núningi sem myndast milli skips og bryggju.“

„En þessu er búið að bjarga. Það voru sett stærri dekk á bryggjuna sem standa aðeins upp af henni. Þetta eru hjólaskófludekk í staðinn fyrir vörubíladekk og þau eru stærri, breiðari og mýkri,“ bætir hann við.

Gamli Herjólfur í Vestmannaeyjahöfn.
Gamli Herjólfur í Vestmannaeyjahöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Gallinn í jafnvægisugganum truflar ekki

En hvað með gallann sem reyndist vera í öðrum jafnvægisugganum?

„Þetta er vökva- eða glussakerfi sem er lokað og það er að seytla meðfram pakkningunni sjór sem blandast við glussann. Það er ekki gott til lengdar en það er ekki að trufla eða skaða eitt né neitt,“ útskýrir Guðbjartur af einstakri þolinmæði.

Þar sem um er að ræða ábyrgðamál mun framleiðandi ugganna laga gallann og verður það gert þegar skipið fer í slipp í lok september og mun einungis taka nokkra daga.

„Það er líka ágætt fyrir okkur að geta siglt skipinu fram að þeim tíma með nýtt skip og nýjan búnað og öllu sem því fylgir þá koma upp, eins og gefur að skilja, hnökrar sem þarf að lagfæra eða bæta og þá gerum við það bara í leiðinni,“ segir Guðbjartur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert