Væntir mikils af Ásgeiri

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segist óska nýjum seðlabankastjóra velfarnaðar …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segist óska nýjum seðlabankastjóra velfarnaðar í starfi og telur hann vel hæfan í embættið. mbl.is/​Hari

„Ásgeir hefur sýnt það á undanförnum árum og áratugum að hann er hæfur til þess að gegna þessu starfi. Hann er reynslumikill bæði úr akademíunni og að sama skapi úr fjármálastarfsemi. Við væntum að sjálfsögðu mikils af honum í starfi og óskum honum alls hins besta,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is um skipun Ásgeirs Jónssonar hagfræðings í embætti seðlabankastjóra.

„Það fer vel að því að formaður nefndar um endurmat á ramma peningastefnunnar verði falið að innleiða þær breytingar sem nefndin lagði til í skýrslu sinni,“ segir Halldór Benjamín og vísar til skýrslu sem unnin var af þriggja manna verkefnastjórn sem skipuð var árið 2017.

Í verkefnastjórninni sátu hagfræðingarnir Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson, auk Ásgeirs sem gegndi formennsku hennar. Meðal tillagna hópsins var sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðinn.

„Það eru krefjandi tímar framundan. Annars vegar vegna breytinga á lagaumhverfi Seðlabankans og sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Það er ljóst að það þarf bæði þekkingu, yfirsýn og reynslu til þess að takast á við þessar áskoranir og ég hygg að Ásgeir hafi sýnt það í störfum sínum á öðrum vettvangi að hann er vel í stakk búinn til þess að takast á við þessar áskoranir,“ segir Halldór Benjamín.

Ekki eru þó allir aðilar vinnumarkaðarins jafn sáttir við skipunina og hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagt skipunina „hörmulegar fréttir.“ Aðrir verkalýðsforingjar sem mbl.is hefur rætt við hafa hins vegar viljað bíða og sjá hvernig nýr seðlabankastjóri reynist í starfi.

mbl.is