Bílstjórinn ætlaði að skilja hana eftir

Sunna Elvíra Þorkelsdóttir lenti í hremmingum þegar hún hugðist taka …
Sunna Elvíra Þorkelsdóttir lenti í hremmingum þegar hún hugðist taka strætó heim úr Kringlunni með fimm ára dóttur sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sunna Elvira Þorkelsdóttir lenti í óskemmtilegu atviki í eftirmiðdaginn í dag þegar hún var á leið heim úr Kringlunni með fimm ára dóttur sinni. Sunna, sem notast við hjólastól, hugðist taka strætisvagn heim en þar sem hún hafði engan til að aðstoða sig inn í vagninn kallaði hún til vagnstjórans og spurði hvort hann gæti tekið rampinn niður, sem hugsaður er til að rúlla hjólastólum inn.

„Ég hef aldrei lent í neinu veseni með þetta áður,“ segir Sunna. Aðrir bílstjórar hafi bara lyft rampinum og hjálpað henni inn með bros á vör. Þessi var þó ekki á þeim buxunum, og segir Sunna að hann hafi hreytt að henni að það væri ekki í hans verkahring. „It‘s not my job.“

Sem það er nú samt. Aðeins er vika síðan annar maður deildi samskonar upplifun af samskiptum sínum við bílstjóra sem neitaði að hjálpa honum inn í vagninn og sagði að hann þyrfti að hafa aðstoðarmann meðferðis til að komast inn. Í kjölfarið baðst upplýsingafulltrúi Strætó afsökunar fyrir hönd fyrirtækisins og sagði að vinnureglur strætó kvæðu á um að vagnstjórar hjálpuðu farþegum inn í vagninn ef þeir þyrftu á því að halda. Rætt yrði við vagnstjórann og „skerpt á vinnulaginu þegar kemur að farþegum í hjólastól“. Svo virðist sem það hafi ekki enn komist fullkomlega til skila.

Brottrekstrarsök

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, hafði heyrt af málinu. Hann segir að póstur hafi verið sendur á alla bílstjóra Strætó eftir að síðasta mál kom upp en síðan standi til að funda með vagnstjórum þegar mannauðsstjóri fyrirtækisins kemur úr sumarfríi eftir verslunarmannahelgi. 

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó. Ljósmynd/Strætó

Í sambærilegu máli í síðustu viku hafi verið um starfsmann Strætó að ræða, en leið 13, sem Sunna tók, sé hins vegar í umsjá verktaka. Því sé ljóst að vagnstjórinn sé ekki sá sami og síðast. Vera megi að pósturinn hafi ekki skilað sér til vagnstjóra sem keyra hjá verktökum, en engu að síður telur Guðmundur að allir bílstjórar ættu að vera meðvitaðir um þetta. Aðspurður segir hann að þegar búið verði að skerpa á verklagi, þannig að allir séu meðvitaðir um að aðstoða skuli einstaklinga í hjólastól, þá muni sömu viðurlög eiga við um það brot og brot á öðrum starfsreglum, en þau geta falið í sér tiltal, áminningu eða brottrekstur.

„Sem betur fer gaf hún sig ekki og það finnst mér ótrúlega flott hjá henni. Sama gildir um stelpurnar sem hjálpuðu henni,“ segir Guðmundur.

Farþegar komu til bjargar

Guðmundur vísar þar til tveggja unglingsstelpna sem voru, til allrar lukku, fyrir í vagninum og segir Sunna að þær hafi boðist til að hjálpa henni að lyfta upp rampinum svo hún gæti rúllað inn í vagninn.

Það virðist hafa farið í bílstjórann. Á næstu stoppistöð fóru stelpurnar út og voru Sunna og dóttir hennar þá einu farþegarnir í vagni 13 á leið að Sléttuvegi. „Þá gefur hann svoleiðis í. Ég verð bara skelkuð og mér er hætt að standa á sama,“ segir Sunna og viðurkennir að hún hafi haft áhyggjur af því hvernig hún ætti að komast út úr vagninum á endastöðinni þar sem hún ætlaði út.

Strætó hefur áður lofað úrbótum í þessum efnum.
Strætó hefur áður lofað úrbótum í þessum efnum. mbl.is/Hari

Þegar þangað var komið voru þær mæðgur enn einu farþegarnir í vagninum. „Til allrar hamingju kemur kona inn í vagninn þar og hún hjálpar mér að setja rampinn niður,“ segir Sunna. Þegar út var komið tekur hún eftir því að vagnstjórinn hefur lagt bílnum það langt frá gangstéttarbrúninni að rampurinn nær ekki inn á hana, en þó það nálægt að hún er klemmd milli ramps og gangstéttar.

Skorar á Strætó að bæta ráð sitt

Hún segist ekki vita hvort það var með vilja gert, en í það minnsta sé ljóst að hefði bílnum verið lagt með eðlilegum hætti hefði hún komist beint upp á gangstétt. Bílstjórinn fer út úr vagninum, eins og venjan er á endastöð þar sem stutt bið er í næstu ferð. „Þessi góða kona hjálpar mér að lyfta hjólastólnum, og hann neyðist til að lyfta með, allavega til málamynda.“

Á meðan hvæsir hann aftur að það sé alls ekki hluti af starfinu.

Sunna segir að ferðin hafi öll verið mjög niðurlægjandi og henni hafi þótt hún varnarlaus ein með dóttur sína. „Maður getur ekki annað en upplifað mikla höfnun,“ segir hún og bætir við að það komi henni á óvart að svona mál komi upp aftur í ljósi þess að yfirmenn Strætó hafi lofað bót og betrun fyrir stuttu. Hún ítrekar að langflestir vagnstjórar hjálpi henni möglunarlaust og þetta sé í fyrsta skipti sem hún lendir í þessu. „Ég skora á Strætó að koma þessu áleiðis til bílstjóranna sem fyrst,“ segir Sunna sem mun hringja í þjónustuverið og leggja inn ábendingu og kvörtun eftir helgi þegar skrifstofur Strætó eru opnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert